Lýst er eftir Glee-stjörnunni Naya Riveru, sem hefur nú verið týnd síðan síðdegis á miðvikudag. Us Weekly segir frá.

Rivera leigði bát með syni sínum, Joey, fjögurra ára, á miðvikudag hjá Piru vatni í Ventura sýslu í Kaliforníu. Átti Rivera að vera með bátinn á leigu í þrjá tíma, en þegar hún skilaði sér ekki á réttum tíma fór starfsmaður að leita að bátnum.

Loks fannst báturinn og svaf sonur Riveru í bátnum en leikkonan var hvergi sjáanleg. Talið er að þau mæðgin hafi fengið sér sundsprett í vatninu og að Joey hafi komist aftur upp í bátinn en móðir hans ekki og þar af leiðandi drukknað.

Leit að Riveru heldur áfram í dag en samkvæmt upplýsingum frá lögreglu á staðnum er gengið út frá því að leikkonan hafi drukknað. Allt bendir til þess að um slys hafi verið að ræða.

Rivera er þekktust fyrir að leika í sjónvarpsþáttunum Glee, en hún hóf ferilinn aðeins fjögurra ára gömul í gamanþættinum The Royal Family. Hún er einnig öflug söngkona og gaf út lagið Sorry árið 2013. Rivera er 33 ára gömul.