Aðgerðarsinninn Greta Thunberg valdi orð sín vel á Twitter fyrr í dag þegar að Donald Trump yfirgaf forsetaembætti Bandaríkjanna.

Greta birti mynd af Donald Trump yfirgefa Hvíta húsið áður en Joe Biden var svarinn í embætti. Greta skrifaði eftirfarandi við myndina:

„Hann virðist vera hamingjusamur, gamall maður sem sér fram á bjarta og dásamlega framtíð.“

Þeir sem þekkja til orðsendinga á milli Gretu og Trump kannast eflaust við orðalagið, enda er Greta að vísa í skot sem hún fékk á sig frá Trump í september árið 2019. Er Greta hélt ræðu á loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna skrifaði Trump kaldhæðnislega á Twitter að Greta virtist vera „mjög hamingjusöm, ung stúlka sem sæi fram á bjarta og dásamlega framtíð.“

Í framhaldinu breytti Greta textanum um sig á Twitter með vísan í þessi orð Trumps og í dag náði hún loksins að fella hann á eigin bragði.