Reykjavík

Hefðbundin dagskrá

Morgunathöfn á Austurvelli verður í beinni útsendingu í sjónvarpi RÚV þar sem allir landsmenn geta fylgst með heima í stofu. Athöfnin er hefðbundin og samanstendur af ávarpi forsætisráðherra og Fjallkonan frumflytur sérsamið ljóð við tilefnið.

Að venju sjá nýstúdentar um að leggja blómsveig við leiði Jóns Sigurðssonar og Ingibjargar Einarsdóttur  í Hólavallakirkjugarði að lokinni morgunathöfn á Austurvelli. Forseti borgarstjórnar flytur ávarp og skátar standa heiðursvakt.

Borgin verður skreytt með fánum og blómum.

Hönnunarmars í Ráðhúsi

Sýningin Næsta stopp um Borgarlínuna og uppbyggingu hennar er í Ráðhúsinu og hún er tilvalin fyrir alla fjölskylduna þar sem upplýsingum um Borgarlínuverkefnið er komið til skila á skilmerkilegan og skemmtilegan hátt þar sem leikurinn er aldrei langt undan. Komdu í Ráðhúsið og kynntu þér framtíðaráform um byltingu í samgöngum á höfuðborgarsvæðinu.

Njótum dagsins og finnum fánana!

Við hvetjum borgarbúa til að skreyta hús og híbýli með íslenska fánanum og taka þátt í leiknum Teljum fána. Leikurinn er innblásin af vinsælustu afþreyingu ársins. Á þjóðhátíðardegi teljum við fána í stað bangsa. Vegfarendur geta svo reynt að koma auga á fána í gluggum, görðum, á girðingum eða annars staðar í hverfinu. Tvö heppin hljóta glæsileg og menningarleg verðlaun fyrir fjölda fána. Verðlaunin eru gjafapoki frá Safnbúðum Reykjavíkur, árskort fyrir fjölskylduna í Húsdýragarðinn, aðgangur fyrir tvo í FlyOver Iceland og Menningarkort Reykjavíkur.  Njótum dagsins og finnum fána! Sendu inn fánatölu með nafni og símanúmeri á netfangið 17juni@reykjavik.is fyrir 20. júní nk. og vinningurinn gæti verið þinn.

Heima eða spóka niður í bæ?

Fyrir þá sem ætla að bregða sér niður í bæ þá verður létt stemning í miðborginni frá kl. 13 til 18.  DJ Dóra Júlía sér um tónlist á Klambratúni og gestir geta gætt sér á veitingum úr matarvögnum á vegum Götubitans. Þá mun sirkuslistafólk Hringleiks sýna listir sínar.

Hægt verður að heyra lúðrasveitarþyt í Miðborginni á milli kl. 13-18, sirkuslistafólk Sirkuss Íslands sýnir, kórar, Listhópar Hins hússins og Götuleikhúsið bregða á leik víðsvegar um Miðborgina til að skapa óvæntar upplifanir.

En eins og sagði í upphafi er fólk eindregið hvatt til að setja upp sína eigin þjóðhátíð með vinum og ættingjum. Grilla, syngja, dansa og uppgötva sirkuslistamanninn í sjálfum sér á heimavelli. Útlit er fyrir tíu stiga hita, lítils háttar skúrum og mildu veðri.

Saga Garðarsdóttur og Katrín Halldóra ætla í skemmtilegum myndskotum að ráðleggja borgarbúum um það hvernig hægt er að halda upp á daginn með pompi og prakt  í sínum garði, götu eða næsta græna svæði í nágrenninu.  Hægt verður að nálgast myndskotin á Facebook síðu 17. júní og Reykjavíkurborgar.

Þá verða sundlaugar í Reykjavík opnar frá kl. 9 til kl. 22  nema Sundhöllin og Laugardalslaug sem verða opnar frá kl. 8 – 22. Fjölskyldu- og húsdýragarðurinn verður opinn frá 10-20

Meira á 17juni.is

Akranes

Í ár verður fallið frá hefðbundnum 17. júní hátíðahöldum á Akratorgi vegna Covid-19. Boðið verður upp á hátíðardagskrá í streymi á netmiðlum Akraneskaupstaðar kl. 14:00. Bæjarbúar eru hvattir til að skreyta nærumhverfi í tilefni dagsins og gera sér glaðan dag með sínu fólki. Myndum frá þjóðhátíðardeginum má gjarnan deila á Instagram og merkja með #Skagalif og #visitakranes. Nokkrir útdráttarvinningar eru í boði, gjafabréf á veitingastaði bæjarins, vinningshafar verða valdir af handahófi.

Sjá nánar á vef Akraneskaupstaðar

Kópavogur

Kópavogsbær vill gleðja sína íbúa eftir mikla inniveru síðustu mánuði og halda 17. júní hátíðlegan þó að hátíðarhöld séu með öðru sniði en vanalega, vegna fjöldatakmarkana.

Að þessu sinni verður áherslan á smærri hverfishátíðir auk þess sem bílalest fer um bæinn með Línu langsokk og Ronju ræningjadóttur í broddi fylkingar.

Dagskrá

10.00: 17.júní hlaup í umsjá Frjálsíþróttadeildar Breiðabliks.  Ætlað börnum í 1.-6.bekk.

12.00-14.00: Þá fara bílalestir um bæinn sem stoppa á vel völdum stöðum. Í bílalestunum verða Lína langsokkur, Ronja ræningjadóttir, Skólahljómsveit Kópavogs, Leikhópurinn Lotta, nýstúdentar og fjallkonur á ferðinni.

Bílalest 1:Leikskólinn Dalur kl. 12:15, Leikskólinn Lækur kl. 12:40, Kársnesskóli kl. 13:25

Bílalest 2:  Álfhólsskóli við Digranes kl. 12:25, Lindaskóli kl. 12:45, Vatnsendaskóli kl. 13:25

Aðalhátíðarhöldin verða svo á fimm stöðum í bænum. Alls staðar er rúmt um gesti þannig að hægt er að tryggja tveggja metra fjarlægð fyrir þá sem það kjósa.

14.00-16.00: Hverfishátíðir á fjórum stöðum, við Fífuna, Fagralund, Salalaug og Kórinn.

Hafnarfjörður

Íbúar og vinir Hafnarfjarðar eru hvattir til þess að fagna 17. júní heima í ár og um leið njóta alls þess sem fallegi bærinn okkar hefur upp á að bjóða. Við búum enn við takmarkanir og ætlum að halda áfram, öll sem eitt, að vera til fyrirmyndar í forvörnum og almannavörnum. Því fögnum við þjóðhátíðardegi á óvenjulegan og öðruvísi máta, ekki með stórri sameiginlegri hátíð heldur með okkar eigin heimahátíð.

Sjá nánar á vef Hafnarfjarðarbæjar. 

Akureyri

Hátíðarhöld á Akureyri þjóðhátíðardaginn 17. júní verða með óhefðbundnu sniði að þessu sinni. Ekki verður safnast saman í Lystigarðinum eða miðbænum eins og verið hefur síðustu árin. Þess í stað verður sérstakur blómabíll á ferð um bæinn frá kl. 13 og kl. 15 hefst skemmtidagskrá fyrir yngri kynslóðina á flötinni austan við Minjasafnið.

Lúðrasveit Akureyrar þenur lúðra, skátarnir hefja fána hátt á loft og boðið verður upp á skemmtidagskrá fyrir ungu kynslóðina.

Sjá nánar á vef Akureyrarbæjar. 

Fréttanetið óskar öllum landsmönnum gleðilegrar hátíðar. Förum varlega og tökum tillit til hvors annars.