Sérstakt áhugamál mitt er að endurgera frægt nammi heima í eldhúsinu, til dæmis Daim-súkkulaði, sem ég gjörsamlega dýrka. Það er lítið mál að búa til Daim heima fyrir, eins og þið sjáið á meðfylgjandi uppskrift.

Daim-súkkulaði

Hráefni:

100 g smjör
1 bolli sykur
2 msk. síróp
3/4 bolli saxaðar möndlur
200 g mjólkursúkkulaði

Aðferð:

Takið til kassalaga form sem er um 20×20 sentimetra stórt. Úðið það með bökunarspreyi og klæðið með smjörpappír. Setjið smjör, sykur og síróp í pott yfir meðalháum hita þar til allt er bráðnað saman. Hrærið af og til í blöndunni svo hún brenni ekki við. Náið upp suðu og lækkið síðan hitann. Leyfið þessu að sjóða í fimm mínútur og hrærið stanslaust svo blandan brenni ekki við. Við viljum að sykurinn leysist upp og að liturinn verði dökkbrúnn. Bætið möndlunum út í og latið malla í um mínútu í viðbót. Takið pottinn af hellunni og dreifið í formið. Sléttið úr blöndunni með sleikju og látið kólna í að minnsta kosti klukkustund. Bræðið súkkulaðið og dreifið yfir stökka karamelluna. Brjótið í mola þegar súkkulaðið hefur harðnað. Og borðið!

Forsíðumynd: Sunna Gautadóttir ljósmyndari