Hin 21 árs gamla Kayallah Jones er nýjasta hetja internetsins – vonarglæta á þessum dimmu tímum. Myndband af henni hefur farið sem eldur um sinu á internetinu, en í myndbandinu sést hún dansa sigurdans eftir að hún nældi sér í vinnu á The Spot, bar og veitingastað í Atlanta í Georgíu.

Samkvæmt frétt CBS hefur Jones verið heimilislaus í tvö ár. Hún hefur aldrei misst vonina, en leit hennar að vinnu varð sífellt erfiðari eftir að heimsfaraldur COVID-19 skall á. Þegar hún svo loksins fékk vinnu á The Spot náðu öryggismyndavélar fyrir utan staðinn að fanga gleði hennar á flmu.

Dakara Spence, eigandi The Spot, segir að hún hafi ráðið Jones því hún kom vel fyrir og var afar jákvæð. Hamingjudansinn á bílastæðinu skemmdi ekki heldur fyrir.

Myndbandið af Jones hefur farið sigurför um Instagram, TikTok og Twitter og hafa margar milljónir manna horft á það. Myndbandið má sjá hér fyrir neðan og mun vafalaust láta ykkur brosa: