Þessar kökur heita Mars Krispies. Nei ekki Rice Krispies. Mars Krispies. Sem sagt, Rice Krispies-kökur með Mars-i. Jebb – það er alveg eins himneskt og það hljómar.

Rice Krispies-kökur eru nefnilega alveg tussugóðar eins og þær eru. Hefðbundnar. Klikka aldrei. En Rice Krispies-kökur með Mars-i…ég fæ vatn í munninn bara við að hugsa um þær. Ég gæti baðið mig upp úr þeim! Eða nei, samt ekki. Það væri ógeðslegt. Miklu betra bara að borða þær allar og þjást síðan af sykursamviskubiti. Svona gott vont.

Mars Krispies

300 g Mars
50 g smjör
120 g Rice Krispies
300 g mjólkursúkkulaði

Aðferð:

Bræðið Mars og smjör saman í stórum potti yfir meðalhita. Þegar allt er orðið vel blandað saman hellið þið Rice Krispies út í, takið pottinn af hellunni og blandið vel saman. Ég setti smjörpappír í ílangt form og skellti blöndunni í það en það er auðvitað líka hægt að fara hefðbundnu leiðina og setja herlegheitin í möffinsform. Leyfið blöndunni að kólna og jafna sig. Bræðið mjólkursúkkulaðið og hellið yfir Mars Krispies. Setjið dásemdina inn í ísskáp og berið fram þegar súkkulaðið hefur storknað.