Kamala Harris, tilvonandi varaforseti Bandaríkjanna, prýðir forsíðu febrúarheftis tímaritsins Vogue. Tvær mismunandi forsíður eru á tímaritinu og hafa þær vægast sagt farið illa ofan í suma.

Á annarri forsíðunni er Harris í svörtum fötum og einkennismerki sínu – Chuck Taylors-skóm. Bakgrunnurinn grænt veggfóður og bleikt efni.

Á hinni er Harris í ljósblárri dragt við bakgrunn í appelsínugulum tónum.

Það er ýmislegt við forsíðurnar tvær sem fer í taugarnar á fólki, hreinlega misbýður sumum. Í fyrsta lagi má nefna stíliseringuna sem ku ekki henta konunni sem mölbraut glerþakið og verður senn fyrsti kvenkyns varaforseti Bandaríkjanna.

„Fólk sem sér ekki af hverju forsíða Vogue af Kamölu Harris er slæm ná þessu ekki,“ tístir ein manneskja. „Myndin sjálf er ekki hræðileg. Hún er bara langt, langt fyrir neðan staðla Vogue. Það var ekkert hugsað út í þetta. Eins og heimaverkefni sem er klárað að morgni skiladags. Vanvirðing.“

Annar netverji er hjartanlega sammála og telur að Vogue hafi brugðist bogalistin.

„Er þessi forsíða með Kamölu Harris ekta?!! Ég hélt að þetta væri grín – svo slæm er hún. Báðu þeir hana bara um að senda inn myndir sem eiginmaðurinn hennar tók?“

Þá er Vogue einnig gagnrýnt fyrir að haga lýsingu þannig að húð Harris virðist vera talsvert ljósari en hún er, en Vogue hefur áður verið gagnrýnt fyrir að lýsa húð þeldökkra.

„Ég skal koma persónulega niður á Condé Nast [útgefandi Vogue] og leiða vinnustofu um lýsingu og litaleiðréttingu á húð sem er dekkri en hvít. Hættið að láta þeldökkt fólk líta svona út. Ég bið ykkur. Geirði það,“ skrifar annar tístari og annar tekur í sama streng.

„Þvílíkt klúður. Anna Wintour á greinilega ekki svarta vini eða samstarfsfélaga,“ en Anna Wintour er ritstjóri Vogue og hefur verið það síðan árið 1988.

„Kamala Harris er með ljósari húð en flestar þeldökkar konur en Vogue nær samt að klúðra lýsingunni. Hvað í andkotanum er í gangi með þessa forsíðu?“ skrifar annar.

Þessi netverji telur ljóst að Anna Wintour þurfi að hætta hjá Vogue:

Í viðtali Vogue við Harris fer hún yfir áætlanir sínar til næstu fjögurra ára og fullyrðir að hún muni ávallt segja satt og vera opinská við tilvonandi Bandaríkjaforseta, Joe Biden.