Ég er rosalega hrifin af lambakjöti í allri sinni dýrð og því var ég himinlifandi þegar ég smakkaði þennan rétt. Uppskriftin er af matarvefnum Delish og ég mæli með að bera þessar dúnmjúku kótilettur með ofnbökuðum kartöflum, fersku salati og unaðslegri sósu.

Lambakótilettur með hvítlauk og rósmarín

Hráefni:

¼ bolli ferskt rósmarín, saxað
5 hvítlauksgeirar, smátt saxaðir
salt og pipar
1 kg lambakótilettur, fitusnyrtar
1 msk. ólífuolía

Aðferð:

Blandið rósmaríni, hvítlauksgeirum, salti og pipar saman á stórum disk. Nuddið kótilettunum upp úr kryddblöndunni. Hitið olíu í stórri pönnu yfir meðalhita. Steikið kótiletturnar í um 4 mínútur á hverri hlið og berið fram með meðlæti að eigin vali.