„Ég hef nú sagt það eftir ferðlag okkar um Ísland í sumar, þar sem við borðuðum fimmtíu þúsund hitaeiningar á nokkrum vikum, að við eigum að selja matarlandið Ísland. Það getum við. Við vorum feimin við það lengi framan af en erum ekkert feimin lengur. Við stöndum algjörlega jafnfætis flestum Evrópulöndum í þeim efnum og framar þeim sumum,“ segir matgæðingurinn Albert Eiríksson.

Albert ætti að vera flestum Íslendingum kunnugur, enda annálaður smekkmaður og hefur haldið fjölmörg námskeið um mat og flest sem honum tengist. Hann hefur einnig tekið að sér að tvinna saman ferðalögum og matarupplifunum en fyrstu helgina í september býður hann upp á sælkeraferð um Fljót í Skagafirði og Siglufjörð.

Matur úr héraði áberandi

„Þetta er verulega spennandi,“ segir Albert um tilurð ferðarinnar, en hugmyndin fæddist er hann ferðaðist um Ísland í sumar með eiginmanni sínum, Bergþóri Pálssyni, söngvara og skólastjóra Tónlistarskóla Ísafjarðar, og tengdaföður sínum, Páli Bergþórssyni, veðurfræðingi.

Hér má sjá þá Albert og Bergþór á ferð sinni um landið – nánar tiltekið í Drangey á Skagafirði. Mynd: Albert eldar

„Við gerðumst ferðabloggarar,“ segir Albert og hlær, en hægt var að fylgjast með ævintýrum ferðalanganna á bloggsíðu Alberts, Albert eldar. „Þetta var ótrúlega gaman og yndislegt að upplifa hvað fólk er að gera fína hluti með mat úr héraði. Það eru allir að vanda sig, ekki í einu heldur öllu. Matur úr héraði var mjög áberandi, ekki síst í matarkistu Skagafjarðar, þar sem tekið var fram á öllum veitingastöðum hvaðan hráefnið var. Þó okkur Íslendingum finnist það svolítið hjákátlegt þá er það það ekki. Fyrir útlendinga er það mikið mál að vita hvaðan maturinn kemur. Úr varð að við stoppuðum á gistiheimilinum Sóta Lodge í Fljótum og hittum annan eigandann. Það fór vel á með okkur og matur kom til tals. Í framhaldi var þessi sælkeraferð ákveðin,“ segir Albert og bætir við að Fljótin séu fullkominn staður fyrir slíka ferð.

„Fljótin eru svo vel staðsett, með matarkistu Skagafjarðar á aðra höndina og Siglufjörð á hina.“

Pantar gott veður

Dagskrá sælkeraferðarinnar er vægast sagt girnileg. Þar tvinnast saman „andleg og líkamleg næring“ eins og Albert orðar það, en í bland við ljúffengar kræsingar fær hópurinn einnig leiðsögn um umhverfið, farið verður í göngutúra og gerðar léttar æfingar undir berum himni, ef veður leyfir. Albert er reyndar pollrólegur yfir duttlungum veðurguðanna.

„Við gerðum grín að því í sumar að við hefðum alltaf verið í góðu veðri því veðurfræðingur var með í för. Þannig að ég panta bara gott veður hjá Páli fyrir þessa ferð,“ segir hann og brosir.

Gistiheimilið Sóti Lodge.

Smjörbaunir og saltfiskspítsa

Miðpunktur ferðarinnar er gistiheimilið Sóti Lodge sem opnaði fyrr á þessu ári. Um er að ræða gamla barnaskólann á Sólgörðum sem geymir ríka sögu, en húsið var upprunalega byggt sem sumardvalarstaður fyrir siglfirsk börn á tímum seinni heimsstyrjaldarinnar. Við hliðina á gistiheimilinu er snotur sundlaug þar sem hægt er að hvíla lúin bein, en Albert segist hafa orðið ástfanginn af svæðinu; kyrrðinni, fegurðinni og auðvitað matnum.

„Ég er algjörlega heillaður af þessu svæði,“ segir Albert og bætir við að það sé engin vöntun á spennandi matarupplifunum á þessu landsvæði.

„Vissir þú til dæmis að þarna er kona sem ræktar smjörbaunir?“ spyr hann og rekur blaðamann á gat. „Við fáum að smakka þær. Á þessu svæði er einnig heilmikil grænmetisrækt og landbúnaðarhéraðið er mjög stórt í Skagafirði. Á Siglufirði er framleitt súkkulaði á Kaffi Fríðu sem er með því besta á Íslandi. Á Siglunesi er marokkóskur veitingastaður sem er úti úr öllu korti. Hann er svo góður að maður emjar bara,“ segir hann og hlær. „Þetta er allt svo ólíkt. Svo fjölbreytt og gott. Í hnotskurn er það sem verið er að gera þarna þverskurður af því sem er að gerast á landinu öllu. Það eru allir að vanda sig. Besta eftirrétt sem ég hef smakkað í allt sumar fékk ég á Grána Bistro í Skagafirði. Hann var svo góður að ég fór aftur næsta dag til að fá mér eftirrétt. Við kynnum okkur líka Baccalá bar í Hauganesi þar sem boðið er upp á saltfiskspítsu. Ég veit að það hljómar örlítið asnalega en guð minn góður hvað hún er góð. Þetta er einn af þessum réttum sem er fáránlega góður og maður verður orðlaus á að smakka saltfiskspítsu. Það er svo gaman að hitta veitingamenn, sjá hvað fólk er að gera, heyra söguna um hvernig hugmyndin varð til beint frá þeim og fá svo að smakka.“

Í Fljótum er gjöfult berjaland.

Rúsínan í pylsuendanum, eða réttara sagt berið ofan á kökuna, er svo auðvitað berjatýnsla, en í Fljótum er mikið og gjöfult berjaland.

„Við förum í berjamó í samvinnu við heimamenn, en eins og þú kannast við eiga heimamenn sína leyniberjastaði sem þeir segja engum frá og fara með eins og hernaðarleyndarmál. Við týnum ber og vinnum kannski með þau og gerum einhverjar tilraunir, því ber eru bæði holl og góð,“ segir Albert.

Kröfur sem allir geta uppfyllt

Miðað er við að tíu til tólf manns sláist í för með Alberti í þessa ljúffengu helgarferð, en ef vel gengur gæti leikurinn verið endurtekinn seinna í september. Albert segir litlar kröfur gerðar til þeirra sem vilja skella sér í sælkeraferð í Skagafjörð – kröfur sem allir ættu að geta uppfyllt.

„Fólk þarf að vera vel búið, vera til í að njóta og hlæja og tilbúið til að borða.“

Dagskrá ferðarinnar má lesa hér.