Ég hafði aldrei bakað með krækiberjum fyrr en ég bakaði þessa köku og ég er mjög ánægð að hafa prófað það. Krækiberin eru reyndar ekki bragðmestu berin í bransanum, þannig að ég hjálpaði þeim aðeins með því að bæta við nokkrum bláberjum og hindberjum. Ég mæli með því!

Og hér er hún – hveitilaus og alls laus, en dásamlega falleg og auðvelt að frysta hana ef þið viljið eiga eitt stykki gúmmulaði í frystinum þegar gesti ber að garði algjörlega óvænt!

Njótið vel og lengi elsku dúllurnar mínar.

Hveitilaus krækiberjakaka

Fylling:

3 bollar krækiber
1/2 bolli bláber
1/2 bolli hindber
2 msk hlynsíróp (hægt að nota hunang)
4 msk maíssterkja

Botn:

2 bollar möndlumjöl
1 1/2 bolli haframjöl
1/2 bolli hlynsíróp (hægt að nota hunang)
2 tsk lyftiduft
1 tsk salt
10 msk smjör (hægt að nota kókosolíu)
4 msk saxaðar pistasíuhnetur

Leiðbeiningar

Fylling:

Hitið ofninn í 170°C og takið til hringlaga form sem er sirka 20-22 sentímetra stórt. Smyrjið það með smjöri, kókosolíu eða bökunarspreyi. Blandið öllum hráefnum í fyllinguna vel saman og leyfið því að standa þar til botninn er tilbúinn.

Botn:

Blandið möndlumjöli, haframjöli, hlynsírópi, lyftidufti og salti vel saman í skál. Bætið smjörinu saman við og vinnið það inn í deigið með höndunum. Þetta tekur smá tíma en það er mikilvægt að allt smjörið blandist vel saman við restina af hráefnunum. Þrýstið rúmlega helmingnum af deiginu í botninn á forminu. Hellið fyllingunni yfir botninn en passið að skilja allan vökva eftir í skálinni. Hér er gott að nota götótta ausu. Ef allur vökvinn af fyllingunni fylgir með í bökuna verður hún of blaut. Blandið hnetum saman við restina af botnsdeiginu og myljið yfir berjafyllinguna. Bakið í 40-45 mínútur og leyfið kökunni að kólna alveg áður en þið skerið hana. Nammi!