Ég prófaði einu sinni að borða eftir Paleo mataræðinu í heilan mánuð. Það var erfitt og skrýtið stundum en ég lærði að búa til alls kyns nýja og spennandi rétti.

Ég hætti ekkert að baka á Paleo mataræðinu en á þessum tíma fæddist til að mynda þetta kex sem er alveg hreint ótrúlega gott, þó uppskriftin virki ekki spennandi.

Geggjað Paleo-hafrakex

Hráefni:

2 1/4 bolli möndlumjöl
1 tsk lyftiduft
1/2 tsk sjávarsalt
1 tsk kanill
1 egg
2 msk hunang

Aðferð:

Blandið saman möndlumjöli, lyftidufti, sjávarsalti og kanil í skál og setjið til hliðar. Blandið eggi og hunangi saman í annarri skál og blandið síðan þurrefnunum saman við. Hér er gott að nota hendurnar. Setjið plastfilmu yfir skálina og inn í ísskáp í um hálftíma. Hitið ofninn í 160°C og setjið smjörpappír á ofnplötu. Fletjið deigið út, annað hvort á milli tveggja smjörpappírsarka eða með möndlumjöli. Skerið út kex með pítsaskera eða skerið út hvaða form sem er. Raðið á ofnplötuna og bakið í 12-15 mínútur. Passið ykkur því um leið og kökurnar fara að brúnast eru þær fljótar að brenna.