Penny Thornton, stjörnuspekingur og náin vinkona Díönu prinsessu heitinnar, lætur sprengju falla í nýrri heimildarmynd á bresku sjónvarpsstöðinni ITV. Myndin heitir The Diana Interview: Revenge of a Princess og fór í loftið í gærkvöldi í Bretlandi. Í myndinni segir Thornton að Karl Bretaprins hafi komið aftan að tilvonandi spúsu sinni kvöldið fyrir brúðkaup þeirra.

„Eitt af því átakanlegasta sem Díana sagði mér var að Karl hefði sagt henni að hann elskaði hana ekki kvöldið fyrir brúðkaupið þeirra,“ segir Thornton.

„Ég held að Karl hafi ekki viljað ganga í hjónabandið á fölskum forsendum. Hann vildi vera hreinskilinn við Díönu og þetta var mikið áfall fyrir hana.“

Thornton bætir við að Díana hafi íhugað að mæta ekki í sitt eigið konunglega brúðkaup. Sagt er frá málinu á vef tímaritsins People.

„Hún vildi ekki gifta sig eftir þetta. Hún íhugaði að mæta ekki í brúðkaupið.“

Koss fyrir myndavélarnar.

Viðtalið fræga

Heimildarmyndin fór í loftið nákvæmlega 25 árum eftir að frægt viðtal við Díönu prinsessu fór í loftið á BBC. Í viðtalinu játaði Díana í samtali við blaðamanninn Martin Bashir að hún og Karl hefðu bæði haldið framhjá á meðan á hjónabandinu stóð. Þegar að Bashir spurði Díönu hvort að Camilla Parker-Bowles, fyrrverandi kærasta Karls og núverandi eiginkona, hafi átt þátt í því að flosnaði upp úr hjónabandi hennar og Karls árið 1992 sagði Díana:

„Tja, við vorum þrjú í þessu hjónabandi þannig að það var þröngt á þingi.“

Þetta svar Díönu skók heiminn og olli miklu fjaðrafoki. Í sama viðtali sagðist Díana hafa átt í sambandi við breska riddaraliðsforingjann James Hewitt. Hún sagðist hafa haldið framhjá Karli með Hewitt.

Sakar BBC um falsanir

Í heimildarmynd ITV er það fullyrt að Bashir hafi falsað skjöl og þvingað Díönu prinsessu til að opna sig. Bróðir Díönu, Charles Spencer, sakaði BBC fyrr í mánuðinum um að falsa skjöl sem hjálpuðu til við að tryggja viðtali við Díönu. Innra eftirlit BBC rannsakaði málið árið 1996 og niðurstöður rannsóknarinnar kváðu um að þessi fölsuðu skjöl hefðu ekki haft nein áhrif á viðtalið. Charles Spencer vísar því á bug og sakar BBC um óheiðarleika.

Skjáskot úr viðtali Bashir við Díönu.

„[BBC] á enn eftir að biðjast afsökunar á því sem skiptir í raun máli: Virkilega alvarleg fölsun á bankayfirlitum sem ýjuðu að því að nánustu trúnaðarmenn Díönu væru að njósna um hana á bandi óvina hennar,“ sagði Charles Spencer í viðtali við People fyrr í þessum mánuði.

„Það var það sem lét mig tala við Díönu um slíka hluti. Það leiddi til fundar þar sem ég kynnti Díönu fyrir Bashir þann 19. september árið 1995. Þetta leiddi síðan til viðtalsins. BBC hefur ekki viljað viðurkenna þetta. Þeir halda því fram að ekki hafi verið villt um fyrir Díönu.“

BBC ítrekaði í síðustu viku að sjónvarpsstöðin hefði beðist afsökunar. Auk þess ætlar stöðin að rannsaka málið frekar og biðja Charles Spencer um frekari upplýsingar um málið. Erfitt er að pumpa Martin Bashir um upplýsingar þar sem hann sé alvarlega veikur.