Lögreglan í Vestur-Sussex á Englandi réðst inn í vöruskemmu á Leopold-stræti í febrúar árið 1949. Vöruskemman var í eigu John George Haigh. Inni í henni fannst margt óhugnalegt. Stórar tunnur fullar af brennisteinssýru, mörg kíló af bráðinni líkamsfitu, partur af fótlegg, gallsteinar og bútur af fölskum tönnum. Allt voru þetta líkamsleifar úr mönnum. Það tók lögreglumennina ekki langa stund að átta sig á hvað hafði gerst í og við vöruskemmuna. Haigh hafði myrt nokkrar manneskjur og leyst líkin upp í sýrubaði til að komast upp með glæpinn.

Það átti síðar eftir að koma í ljós að Haigh hafði planað þennan „fullkomna glæp“ afar vel, og hefði látið til skarar skríða á ný ef hann hefði ekki misstigið sig, með þeim afleiðingum að lögreglan komst á snoðir um voðaverk hans.

Elskaði klassíska tónlist

John George Haigh fæddist inn í auðuga og íhaldssama fjölskyldu í Yorkshire á Norður-Englandi. Á uppvaxtarárunum sótti hann klassíska tónleika og fékk ýmsa námsstyrki vegna góðs gengis á námsárunum. Haigh lærði á píanó heima við og varð býsna góður. Hafði hann unun af því að hlýða á meistara klassískrar tónlistar, svo sem Bach, Vivaldi og Tchaikovsky. Auk þess þandi hann raddböndin í kirkjukórnum. Ekki beint uppskrift að kaldrifjuðum morðingja.

Fjölskylda hans var afar trúuð og sagði Haigh seinna frá því að hann hefði fengið síendurteknar, trúarlegar martraðir í barnæskunni. Martraðirnar snerust fyrst og fremst um blóð. Frá unga aldri virðist hann hafa orðið afar hugfanginn af blóði og líkt og rauðleiti lífsvökvinn hafi ásótt hann.

Konan fór frá honum

Haigh komst fyrst í vandræði þegar hann var 21 árs, árið 1930. Þá hafði hann ráðið sig í vinnu hjá stóru tryggingafyrirtæki en var rekinn, grunaður um að hafa stolið fjármunum fyrirtækisins. Hann slapp með skrekkinn því lögreglan var ekki kölluð til. Þrátt fyrir það hélt Haigh uppteknum hætti. Hann var handtekinn fjórum árum síðar og kastað í steininn fyrir svindl. Nokkrum mánuðum áður hafði Haigh kvænst Beatrice „Betty“ Hamer. Hamer fæddi þeirra fyrsta barn á meðan Haigh var bak við lás og slá. Sambandið stóð hins vegar á brauðfótum áður en Haigh var fangelsaður og því gaf Hamer barnið til ættleiðingar og skildi við Haigh. Þetta fór illa í íhaldssama fjölskyldu svikahrappsins og var hann útskúfaður úr fjölskyldunni í kjölfar sambandsslitanna.

Haigh var klókur svikahrappur.

Vendipunkturinn

Haigh hafði því engu að tapa þegar hann losnaði úr fangelsi tveimur árum eftir að hann hóf afplánun. Þá flutti hann til London, höfuðstað Englands, og fékk vinnu sem bílstjóri. Þó hann hafi kynnst vægðarlausa lífinu á bak við lás og slá hélt hann áfram að blekkja góðhjartað og auðtrúa fólk. Hann þóttist vera lögfræðingurinn William Adamson og stundaði verðbréfabrask. Árið 1939 var hann gómaður á nýjan leik og dæmdur í fjögurra ára fangelsi fyrir fjársvik. Það má segja að það hafi verið vendipunktur í lífi þessa siðblinda manns því það var í fangelsi sem hann gerði sér grein fyrir sínum stærstu mistökum – hann þyrmdi fórnarlömbum sínum og því gátu þau sagt til hans.

Haigh eyddi þessum fjórum árum í að finna leiðir til að losa sig við vitni þeirra glæpa sem hann ætlaði að fremja þegar hann losnaði út. Hann kynnti sér franska morðingjann Georges-Alexandre Sarret í þaula. Einkennismerki Sarret var að leysa lík fórnarlamba sinna upp í brennisteinssýrubaði. Haigh notaði þennan mikla frítíma sinn í að þróa sína eigin leið með alls kyns tegundir af sýru. Hann æfði sig á músum og gat reiknað út hve mikla sýru hann þyrfti til að leysa upp líkama fullvaxta karlmanns og hve langan tíma það tæki. Hrollvekjandi áhugamál, svo ekki sé meira sagt.

Þjakaður af afbrýðisemi

Haigh fór aftur út á vinnumarkaðinn að fjórum árum liðnum og nældi sér í starf í bókhaldsdeild á verkfræðistofu. Stuttu síðar rakst hann á gamlan félaga, William McSwan, sem Haigh hafði keyrt um í bílstjóratíð sinni. McSwan sagði honum frá nýju viðskiptatækifæri, en McSwan sá sér farborða með því að rukka leigu af fólki sem leigði hús foreldra hans, en þau áttu nokkrar eignir á víð og dreif.

Haigh varð afbrýðisamur út í McSwan, þó hinn fyrrnefndi þénaði vel á verkfræðistofunni. Haigh var sannfærður um að McSwan lifði lúxuslífi án þess að þurfa að hafa mikið fyrir því. Nokkrum mánuðum eftir að þeir rákust á hvor annan ginnti Haigh McSwan í yfirgefinn kjallara og sló hann í hausinn. Haigh setti McSwan í 150 lítra tunnu sem var full af brennisteinssýru. Tveimur dögum síðar var hinn frambærilegi McSwan orðinn að um fimmtíu kílóum af eðju sem Haigh hellti ofan í ræsi.

Haigh sannfærði foreldra McSwan um að hann hefði stungið af svo hann myndi ekki vera sendur í herinn. Haigh var snillingur í blekkingum og náði að gera sig að miskunnasama samverjanum í augum McSwan-hjónanna og bauðst til að taka við skyldum og störfum sonar þeirra. McSwan-hjónunum fór hins vegar að gruna eitthvað misjafnt þegar að stríðinu lauk og sonur þeirra sneri ekki aftur heim. Þau gengu á Haigh og vildu sannleikann. Haigh leysti málið með því að drepa þau og losa sig við líkin á fyrrgreindan hátt í vöruskemmu í Gloucester.

Enduðu í ræsinu

Haigh stal um átta þúsund pundum af fjölskyldunni og flutti inn í hótelherbergi á Onslow Court-hótelinu í Kensington. Auðurinn entist hins vegar skammt þar sem Haigh þróaði með sér spilafíkn. Hann dó ekki ráðalaus og leitaði að nýju vellauðugu pari til að drepa.

Haigh tók upp á því að sýna glæsihýsi sem var til sölu í grenndinni mikinn áhuga. Síðan myrti hann eigendurnar, Dr. Archibald Henderson og eiginkonu hans, Rose. Örlög Henderson-hjónanna urðu þau sömu og McSwan-fjölskyldunnar og enduðu þau einnig sem eðja í ræsi við vöruskemmuna.

Nú var Haigh búinn að myrða fimm manns og virtist þetta ráðabrugg ætla að ganga upp eins og í lygasögu. Því ákvað hann að stækka við sig. Hann losaði sig við vöruskemmuna í Gloucester og leigði aðra stærri á Leopold-stræti. Það var í þeirri vöruskemmu sem hann mundi drepa og leysa upp sitt sjötta og síðasta fórnarlamb.

Líkamsleifar á ruslahaugi

Olive Durand-Deacon var moldrík ekkja sem bjóa í herbergi á Onslow Court-hótelinu, líkt og Haigh. Olive leit á sjálfa sig sem mikla uppfinningakonu. Þegar hún komst að því að Haigh vann á verkfræðistofu gat hún ekki annað en fengið með honum fund til að ræða um hugmynd hennar að gervinöglum. Haigh greip tækifærið, narraði hana í vöruskemmuna og myrti hana þar.

Þó vöruskemman á Leopold-stræti væri nánast eins og sniðin fyrir kaldrifjaða morðingjann Haigh var eitt sem hann klikkaði á. Í skemmunni í Gloucester var nefnilega stórt ræsi þar sem leikur einn var að hella niður uppleystum líkamsleifum. Sá lúxus var ekki fyrir hendi á Leopold-stræti. Því þurfti Haigh að losa sig við eðjuna á ruslahaugi fyrir aftan vöruskemmuna. Það átti eftir að koma honum í klandur.

Vinkona Durand Deacon tilkynnti um hvarf hennar. Þegar lögreglan byrjaði að rannsaka málið leiddi ein slóðin að Haigh, sem var með langan afbrotaferil eins og áður segir. Lögreglan leitaði í herbergi hans og fann kvittun fyrir hreinsun á pels, líkt og yfirhöfninni sem Haigh hafði stolið af síðasta fórnarlambi sínu. Í herberginu fundust einnig skjöl tengd Henderson-hjónunum og McSwan-hjónunum. Af þessum sökum leitaði lögreglan einnig í vöruskemmunni á Leopold-stræti og kom þar ýmislegt forvitnilegt og ógnvekjandi í ljós. Líkamsleifar Durand Deacon fundust á ruslahauginum og Haigh var handtekinn.

Lögreglan leitar á ruslahauginum.

Þóttist vera geðveikur

Haigh bar fyrir sig að hann hefði misst vitið við að drekka blóð fórnarlamba sinna. Það voru hins vegar engin sönnunargögn sem studdu það. Þegar að Haigh reyndi að spila sig geðveikan sagði einn lögreglumannanna, Albert Webb, frá því við yfirheyrslur að Haigh hefði spurt hann við handtökuna hvort hann hefði meiri möguleika á að vera sleppt af geðsjúkrahúsi en fangelsi.

„Segðu mér í sannleika sagt hvort einhver eigi möguleika á að vera sleppt af Broadmoor?“ á Haigh að hafa spurt um, en Broadmar var geðsjúkrahús með mikla öryggisgæslu. Lögreglumaðurinn sagðist ekki geta rætt þetta við Haigh. Þá kváði morðinginn:

„Tja, ef ég segi þér sannleikann þá myndir þú ekki trúa mér. Hann er of stórkostlegur til að geta verið sannur.“

Svo fór að Haigh játaði á sig öll morðin sem og morð þriggja annarra morða, sem fengust þó ekki sönnuð. Frá þessari stundu gekk hann ávallt undir nafninu Sýrubaðsmorðinginn (e. Acid Bath Killer). Það tók kviðdóm aðeins nokkrar mínútur að ákveða sig við réttarhöldin og var Haigh dæmdur til dauða fyrir voðaverkin. Haigh var tekinn af lífi þann 10. ágúst árið 1949.