Gott lasanja er gulls ígildi. Þetta lasanja tekur smá tíma og þarfnast þolinmæði, en það skilar sér allt í guðdómlega góðu lasanja sem gæti hugsanlega verið það besta sinnar tegundar í heiminum!

Besta lasanja í heimi

Hráefni:

2 msk. ólífuolía
25 g smjör
450 g nautahakk
1 laukur, saxaður
2 hvítlauksgeirar, maukaðir
20 konfekttómatar, skornir í helminga
800 g tómatar í dós
100 g tómatpúrra
½–1 bolli kjúklinga- eða grænmetissoð
1½ tsk. ítölsk kryddblanda
½ tsk. múskat
1 tsk. salt
½ tsk. pipar
¼ tsk. broddkúmen
4 msk. fersk steinselja, söxuð
12 lasanjaplötur
450 g kotasæla
1 egg
300 g rifinn ostur
¾ bolli rifinn parmesanostur

Aðferð:

Hitið olíu og smjör í stórri pönnu yfir meðalháum hita. Steikið laukinn í um fimm mínútur og bætið hvítlauk saman við. Bætið konfekttómötum út í og látið malla í nokkrar mínútur. Sprengið tómatana með sleif eða spaða. Búið til pláss í miðjunni og steikið hakkið. Kryddið með ítölsku kryddi, múskati, salti, pipar og broddkúmen. Blandið vel saman og bætið tómötum í dós, púrru og soði vel saman við. Blandið 2 matskeiðum af steinselju saman við. Lækkið hitann og látið malla í einn og hálfan tíma. Hrærið reglulega í kjötsósunni. Náið upp suðu í potti með léttsöltuðu vatni og sjóðið lasanjaplöturnar í 8 til 10 mínútur. Þerrið þær á smjörpappírsörk. Blandið kotasælu, eggi, restinni af steinselju og smá salti saman í skál.

Þá er að setja réttinn saman. Hitið ofninn í 190°C. Dreifið 1½ bolla af kjötsósu í botninn á stóru eldföstu móti. Raðið 3–6 lasanjaplötum ofan á. Dreifið úr helmingnum af kotasælublöndunni ofan á og síðan 1/3 af rifna ostinum. Hellið 1½ bolla af kjötsósunni ofan á og stráið ¼ bolla af parmesanosti ofan á. Endurtakið og toppið síðan með restinni af ostinum og parmesanosti. Hyljið með álpappír og bakið í 25 mínútur. Takið álpappírinn af og bakið í aðrar 25 mínútur.