Cathy Terkanian varð ólétt sem táningur á áttunda áratug síðustu aldar og ákvað að gefa barnið til ættleiðingar, dóttur sem hún skírði Alexis. Í dag er Terkanian 62ja ára, en hún ákvað að reyna að hafa upp á dóttur sinni þegar að Alexis komst sjálf á táningsaldurinn.

„Ég ímyndaði mér að hún ætti frábært líf,“ segir hún í viðtali við tímaritið People. „Ég vildi ekki skipta mér að lífi hennar þegar hún var krakki þannig að ég lét það vera þar til hún varð um það bil fimmtán ára.“

„Þetta var áfall“

Þegar að Terkanian hóf leit sína fékk hún þær fréttir að leynd hvíldi yfir ættleiðingunni og því fékk hún ekkert að vita um dóttur sína. Það voru mikil vonbrigði en árið 2010 fékk hún bréf frá hinu opinbera og hún beðin um að setja sig í samband við félagsmálayfirvöld.

„Ég hélt að ég myndi hitta hana,“ segir Terkanian. Hún fékk hins vegar þær fregnir að dóttir hennar hefði horfið sporlaust í mars árið 1989, þegar hún var aðeins fjórtán ára gömul. Félagsmálayfirvöld vildu ekki gefa Terkanian upp nafn kjörforeldra hennar né nafnið sem þau gáfu Alexis. Þau vildu hins vegar veita henni upplýsingar um í hvaða ríki Bandaríkjanna hún bjó þegar hún hvarf og það var í Michigan.

Terkanian og maður hennar, Edward, tóku þá málin í sínar hendur og þræddu internetið til að komast að nafn stúlkunnar. Þau fundu það að lokum á vefsíðu lögreglunnar í Michigan, en Alexis litlu hafði verið gefið nafnið Aundria Bowman.

„Þetta var áfall,“ rifjar Terkanian upp. „Og síðan hófst vinnan.“

Alexis.

Misnotuð af kjörföðurnum

Terkanian talaði við gamla skólafélaga Aundriu og komst þá að því að Aundria hefði verið kynferðislega misnotuð af kjörföður sínum, Dennis Bowman. Terkanian náði einnig að grafa upp að Bowman hefði játað sig sekan í líkamsárásarmáli árið 1980, en þá lokkaði hann nítján ára gamla stúlku inn í skóg, réðst á hana og ætlaði að nauðga henni.

„Ég hugsaði: Þessi gaur gerði það,“ segir Terkanian og vísar þá í að Bowman hefði átt hlut í máli í hvarfi dóttur hennar. „Ég fékk hugboð um það.“

Terkanian hafði samband við yfirvöld í Michigan um mál dóttur sinnar, dreifði dreifimiðum í kringum þær slóðir þar sem Alexis sást seinast og vann með einkaspæjara.

„Ég var staðráðin í því að komast að sannleikanum.“

Dennis Bowman.

„Hún er barnið mitt“

Terkanian komst loksins að sannleikanum. Bowman var kærður fyrir morð í nóvember árið 2019 eftir að DNA-sýni tengdi hann við morðið á hinni 25 ára Kathleen Doyle sem hafði verið nauðgað, kyrkt og stungin til bana á heimili sínu í Norfolk í Virginíu áirð 1980. Bowman var dæmdur í lífstíðarfangelsi í júní árið 2019 og játaði fyrir rannsóknarlögreglumönnum í desember það árið að hann hefði slegið Alexis með þeim afleiðingum að hún datt niður stiga og hálsbraut sig.

Lögregluyfirvöld fundu líkamsleifar Alexis í tunnu í bakgarði Bowmans í febrúar á þessu ári. Búið er að kæra Bowman fyrir morð, barnamisnotkun og limlestingu á líki. Enn á eftir að taka málið fyrir. Terkanian stefnir nú að því að ógilda ættleiðinguna og breyta nafni dótturinnar aftur í Alexis.

„Ég ætla að brenna líkið og taka hana heim með mér,“ segir hún. „Hún er barnið mitt. Hún tilheyrir mér. Allar mæður myndu gera hið sama. Og þegar ég verð grafin verður hún grafin með mér.“