Tækninni fleygir fram og oft tekur mann langan tíma að uppgötva allt sem nýjustu tæki og tól geta gert. The Sun gleður iPhone-notendur á heimasíðu sinni með því að segja þeim frá leynihnappi sem þeir vissu örugglega margir ekki af.

Um er að ræða stillingu sem heitir „Back Tap“ en hún virkar eingöngu fyrir þá sem eru með nýja iOS 14 stýrikerfið. Til að virkja „Back Tap“ er farið inn í „Settings“, skrunað niður í „Accessibility“ og því næst smellt á „Touch“.

Þar skrunar maður niður þar til maður finnur „Back Tap“. Þá er hægt að velja um að kveikja á „Double Tap“ eða „Triple Tap“, tvöfalt eða þrefalt klapp. Hér skiptir ekki höfuðmáli hvort er valið því í næsta skrefi fást upp sömu valmöguleikar. Með því að velja annan hvorn þessara valmöguleika er hægt að stjórna vissum hlutum á símanum með því að klappa tvisvar eða þrisvar á bak hans.

Meðal þess sem hægt er að stjórna með þessum hætti er hljóði í símanum, hægt er að taka skjáskot, skruna upp og niður og fleira. Þegar búið er að velja „Double Tap“ eða „Triple Tap“ er einfaldlega valið hvað tvöfalda eða þrefalda klappið á að gera.

Vert er að hafa í huga að þetta gæti ekki virkað á símum sem eru í þykku símahulstri. Þeir sem eru ekki með iOS 14 geta uppfært stýrikerfið með því að fara í „Settings“ > „General“ > „Software Update“ á iPhone og uppfært stýrikerfið. Ef að uppfærslan er ekki í boði í símanum þínum gæti hún verið væntanlega innan nokkurra daga.