Mér finnst fátt betra en góð brúnka. Og einn helsti kostur við brúnkur er hvað þær eru ofureinfaldar og hægt að henda í þær með litlum fyrirvara þegar að gesti ber að garði.

Ég baka allavega mjög oft brúnkur því það eru svo fá hráefni í þeim og ég á þau yfirleitt öll til heima þannig að ég þarf ekki einu sinni að fara út í búð. Svo er hægt að poppa brúnkur upp með alls konar og þá er um að gera að leyfa ímyndunaraflinu að leika lausum hala.

Kaffið er hetjan í þessari brúnku en ég poppaði hana upp með smá karamellusósu sem má alveg sleppa. Þetta gerist ekki einfaldara!

Kaffi- og karamellubrúnkur

Hráefni:

115 g smjör
230 g dökkt súkkulaði (grófsaxað)
3/4 bolli sykur
3 stór egg
1 tsk vanilludropar
4 msk kalt, sterkt kaffi
3/4 bolli hveiti
2 msk kakó
1/4 tsk salt
1/4 bolli karamellusósa (má sleppa)

Aðferð:

Hitið ofninn í 180°C og smyrjið form sem er 20×20 cm stórt. Bræðið smjör og súkkulaði saman, í potti eða örbylgjuofni, og leyfið blöndunni að kólna. Blandið sykri saman við súkkulaðiblönduna og hrærið vel. Bætið síðan eggjunum saman við, einu í einu, og síðan vanilludropum og kaffinu. Blandið hveiti, kakói og salti varlega saman við þar til allt er blandað vel saman en passið að blanda ekki of mikið. Hellið deiginu í formið og breiðið úr því. Hellið karamellusósuna yfir ef þið notið hana. Bakið í 30-35 mínútur og leyfið kökunni að kólna aðeins áður en þið skerið hana í bita.