„Fleiri og fleiri bætast við á hverjum markaði og er aðal vesenið að finna nægilega stórt húsnæði,“ segir Eyrún Anna Tryggvadóttir, eigandi Von Verslun og ein af upphafskonum pop up markaða fyrir íslenskar verslanir.

Eyrún og vinkonur hennar, þær Olga Helena Ólafsdóttir og Sara Björk Purkhús, stofnuðu allar netverslanir árið 2017 og þurftu leið til að koma sér á framfæri. Þá fæddist hugmynd sem margar íslenskar verslanir hafa notið góðs af.

Óraði ekki fyrir velgengninni

„Við stofnuðum okkar netverslanir 2017 og í kjölfarið fórum við að leita að skemmtilegum mörkuðum til að koma okkar vörum á framfæri, kynnast nýju viðskiptavinum, auglýsa okkur og stækka. Það voru engir slíkir markaðir á Íslandi og ákváðum við Olga og Sara að halda okkar eigin markaði,“ segir Eyrún. Hana óraði ekki fyrir velgengni markaðarins.

„Síðan þá höfum við haldið yfir tíu markaði á Íslandi, yfir áttatíu netverslanir og verslanir eru á mörkuðum hjá okkur og þetta verkefni hefur stækkað og þróast eftir hvern markað. Í dag eru sirka fjörutíu þúsund manns að koma á markaðina okkar og þar er boðið upp á skemmtiatriði fyrir börnin, húllumhæ og stemningu. Þarna höfum við náð að skapa ekki bara markað heldur smá hátíð.“

Mikil samstaða

Í skugga heimsfaraldurs COVID-19 þurftu Eyrún, Olga og Sara að hugsa út fyrir boxið og færðu markaðinn á netið, á heimapopup.is. Næstu helgi, þann 4. til 5. júlí, blása þær til risa sumarmarkaðar á Laugardalsvelli þar sem verður ekki aðeins hægt að versla hjá íslenskum verslunum heldur gæða sér á mat úr matarvögnum og börnin geta fengið útrás í hoppuköstulum. Eyrún segir aðsókn verslana í markaðinn vera gífurlega mikla og samstaðan milli fyrirtækja gífurleg.

„Það er magnað að sjá hvað fyrirtækin hjálpa til við að auglýsa og fá fólk til að mæta, það græða allir á því að vel sé sótt á markaðina. Við stofnuðum Facebook-hóp sem heitir Eigendur netverslana á Íslandi og eru um 1500 manns í hópnum.Þarna fer fram skipulagning fyrir markaðina, fólk deilir hugmyndum, leitar ráða og aðstoðar aðra í hópnum,“ segir Eyrún og heldur áfram.

„Ávinningur fyrir fyrirtæki að taka þátt á mörkuðum hjá okkur er mikill. Tengslamyndun við aðra eigendur fyrirtækja, auglýsa og kynna sitt fyrirtæki, tækifæri að stilla upp „búð“ eina helgi án þess samt að opna alveg búð. Á mörkuðum geta viðskiptavinir mátað föt, komið við vörurnar, fundið lykt og fleira sem ekki er hægt í gegnum netið. Þetta er tækifæri til að stækka markhópinn og auðvitað selja.“

Verslun á netinu er lykilatriði

En hvernig hefur COVID-19 leikið íslenskar netverslanir?

„Ég held að þessi tími hafa bara verið jákvæður,“ segir Eyrún. „Fólk vill minna mæta á svæðið og skoða, máta og snerta. Flestir heima að vinna og alltaf nettengdir. Í dag er svo auðvelt að versla allt á netinu. Ég held frekar að fólk mikli þetta oft fyrir sér. Þú byrjar að versla einu sinni á netinu þá sérðu hvað þetta er einfalt og þægilegt. Það voru mjög mörg fyrirtæki sem nýttu tímann, tóku sínar netverslanir í gegn til að gera þær þægilegri og einfaldari og síðan voru önnur fyrirtæki sem jafnvel voru búin að vera í rekstri í mörg ár sem stofnuðu sína netverslun í COVID. Ef maður er ekki með netverslun, eða allavega valmöguleikann að geta verslað á netinu, þá er maður frekar eftirá.“

Eyrún segir framtíð pop up markaðanna bjarta og segir þær vinkonurnar vera stoltar af hvernig tekist hefur til.

„Okkur hefði ekki dottið í hug að það væri yfir höfuð svona mikið til af netverslunum á Íslandi. Við viljum styðja við litla manninn og auðvitað íslenska verslun.“