Ég elska mexíkóskan mat alveg svakalega mikið og gerir eiginmaðurinn ávallt grín að mér þegar við erum hugmyndasnauð korter í kvöldmat og ég fylli körfuna af nachos og grænmeti. Þá veit hann hvað er í vændum. Ég er því svakalega ánægð með að hafa loksins náð að fullkomna vefjurnar mínar með þessum heimagerðu taco pönnukökum. Þessar pönnukökur eru nefnilega algjört æði!

Og svo fáránlega einfaldar. En hafið samt í huga að ég sólundaði mörgum hveitipokanum í tilraunum til að finna hina einu, réttu blöndu þannig að á bak við þennan einfaldleika eru þrotlausar æfingar í eldhúsinu. Pönnukökur með reynslu, sem sagt.

Ég get nánast lofað ykkur því að þið eigið aldrei eftir að kaupa vakúmpakkaðar pönnukökur út í búð aftur. Pönnukökur sem eru jafnvel búnar að liggja í búðarhillunum í einhverjar vikur og eru allt annað en ferskar. Héðan í frá eigið þið alltaf eftir að gera ykkar eigin pönnukökur og ekki bara spara krónur heldur græða partí í munninum ykkar.

Þessar kökur eru langbestar þegar þær eru nýbakaðar og held ég hita á þeim með því að geyma þær á disk á eldavélinni á meðan ég baka. Þetta tekur nefnilega smá tíma og við viljum alls ekki að kökurnar kólni. Og þessi uppskrift sem ég býð uppá dugar í kökur fyrir alla fjölskylduna mína, sem telur 3-4 fullorðna og 2-3 börn. Ég bý yfirleitt til frekar litlar kökur því mér finnst þær talsvert meðfærilegri en stórar. En þið náttúrulega ráðið þessu alveg. Þær eru alveg jafngóðar á bragðið, hvort sem þær eru stórar eða litlar.

Annað var það ekki. Nema jú, eitt. Mér finnst þessar bestar bara saltaðar en þið getið auðvitað leikið ykkur með krydd. Byrjið samt á einföldu útgáfunni og týnið ykkur svo í bragðlaukaævintýri. Njótið!

Taco pönnukökur

Hráefni:

3 bollar hveiti
1 bolli volgt vatn
1 tsk sjávarsalt (plús meira við bakstur)
4 1/2 msk grænmetisolía (líka hægt að nota ólífuolíu)

Leiðbeiningar:

Blandið öllum hráefnum vel saman í skál og hnoðið deigið vel. Leyfið því síðan að hvíla í um 10 mínútur. Setjið nokkra dropa af olíu á pönnu og hitið yfir háum hita. Takið smá klípu af deiginu og fletjið út í hringlaga köku. Deigið er frekar teygjanlegt þannig að ég leik mér líka með það í höndunum og teygi það aðeins til. Við viljum að kökurnar séu frekar þunnar. Þegar pannan er orðin mjög heit, er kökunni skellt á og smá sjávarsalti stráð yfir hana. Kakan er síðan bökuð í um mínútu. Síðan er henni snúið við og hún bökuð í um mínútu í viðbót. Mér finnst best að nota töng til að snúa kökunum við. Svona er þetta gert koll af kolli þar til deigið er búið. Munið bara að pannan þarf að vera vel heit og kökurnar þurfa ekki langan baksturstíma þannig að það þarf að fylgjast mjög vel með þeim.