Ben Watkins, keppandi í matreiðsluþáttunum MasterChef Junior, er látinn aðeins 14 ára að aldri. Watkins hafði barist við sjaldgæft krabbamein í eitt og hálft ár áður en hann lést samkvæmt frétt Chicago Tribune. Aðeins þrjú ár eru síðan báðir foreldrar hans létust í kjölfar heimilisofbeldis.

Í yfirlýsingu sem frændi Watkins, Anthony Edwards, og amma hans, Donna Edwards, hafa gefið út stendur að Watkins sé nú „kominn heim“ til móður sinnar.

„Við höfum dáðst að styrk, hugrekki og ást Bens á lífinu eftir að hann missti báða foreldra sína í september árið 2017,“ stendur í yfirlýsingunni.

„Hann kvartaði aldrei. Ben var og mun alltaf verða sterkasta manneskja sem við þekkjum.“

Watkins ásamt móður sinni.

Watkins greindist með Angiomatoid Fibrous Histiocytoma í fyrra, en það er afskaplega sjaldgæft mjúkvefsæxli. Amma hans og frændi segja í yfirlýsingunni að Watkins hafi þótt vænt um þann stuðning sem hann fékk þegar hann greindist og þakka innilega fyrir það.

„Ben þjáðist meira en góðu hófi gegnir á sínum fjórtán árum á jörðinni en við huggum okkur við það að hann þarf ekki að þjást lengur. Þegar endalokin nálguðust vissi Ben að margir elskuðu hann.“

Watkins lá á Lurie barnasjúkrahúsinu í Chicago þegar hann lést. Þar gekkst hann undir lyfjameðferð vegna æxla á lungum, hryggjasúlu og öxl. Þá var hann einnig með æxli í hálsinum á stærð við greipaldin.

Watkins sló í gegn í MasterChef Junior.

„Við vorum að vonast eftir annarri útkomu,“ segir frændi hans, sem var lögráðamaður hans, í viðtali við Chicago Tribune. „En lungu Bens gátu ekki lengur gefið honum loftið sem hann þurfti til að anda. Þetta hefur verið hrikalegt.“

Hann segir að Watkins hafi verið kallaður ofurhetja í fjölskyldunni.

„Hann var svo fórnfús. Hann var ótrúlegur persónuleiki,“ segir hann. „Ben verður alltaf ofurhetjan okkar.“

Eins og áður segir létust báðir foreldrar Watkins árið 2017. Faðir hans skaut og drap móður hans áður en hann framdi sjálfsmorð. Harmleikurinn átti sér stað rétt eftir að Watkins lauk tökum á sjöttu þáttaröð af MasterChef Junior.