Söngkonan Miley Cyrus opnar sig upp á gátt í hlaðvarpsþættinum Joe Rogan Experience með Joe Rogan, en í þættinum talar hún meðal annars um alkóhólisma, ástarlífið og ferilinn.

„Ég er edrú“

Miley hefur talað opinskátt um eiturlyfjaneyslu sína en nú er hún hætt að reykja gras.

„Ég er edrú,“ segir Miley en bætir þó við að hún fái sér áfengan drykk við og við.

„Ég lærði mikið um áhrif reykinga, eitthvað sem enginn kennir þér. Þetta snýst ekki um drykkju heldur þegar maður vakir alla nóttina og fær sér drykk þá endar maður á því að reykja líka.“

Miley upplifir það sem svo að hún sé orðin andlit edrúmennsku þegar kemur að grasreykingum, þótt hún hafi aldrei viljað vera sú fyrirmynd. Hún ítrekar að hún vilji ekki predika yfir neinum um að hætta að reykja.

View this post on Instagram

BTS @vmas 🤘

A post shared by Miley Cyrus (@mileycyrus) on

„Þetta er mitt persónulega val. Ég held að allir ættu að prufa sig áfram. Þá lærir maður mikið um sig sjálfan og fólkið í kringum sig.“

Miley segist aldrei hafa átt við áfengisvandamál að stríða en að alkóhólismi sé ríkjandi í fjölskyldu hennar.

„Það er strokað út þegar maður er frægur og Hollywood er kennt um. En nei, langamma mín var alkóhólisti, afi minn var alkóhólisti, amma mín var alkóhólisti. Það var ekki Hollywood að kenna. Þetta er í genunum,“ segir Miley.

Illmennavæðing og slúður

Söngkonan eyðir talsverðum tíma í hlaðvarpinu í að tala um skilnað sinn við leikarann Liam Hemsworth. Þau gengu í það heilaga í desember árið 2018 en skildu árið 2019 eftir nærri áratugasamband.

Liam og Miley giftu sig í desember árið 2018.

„Ég gekk nýlega í gegnum mjög opinberan skilnað sem var ömurlegt,“ segir Miley. „Það ömurlegasta var ekki að ég og einhver sem ég elskaði gerðum okkur grein fyrir að við elskuðum hvort annað ekki eins og við gerðum. Það er í lagi – ég get tekið því. Ég get hins vegar ekki samþykkt illmennavæðinguna og allt þetta slúður.“

Miley hefur verið í sviðsljósinu síðan hún var barn og sló í gegn í sjónvarpsþáttunum Hannah Montana. Það kemur henni samt enn á óvart þegar að einkalíf hennar er rifið í tætlur í fjölmiðlum, en stuttu eftir skilnaðinn við Liam gamnaði hún sér með vinkonu sinni, Kaitlynn Carter, en myndir náðust af þeim á Ítalíu þar sem þær kysstust og voru innilegar.

Miley og Kaitlynn.

„Mér finnst það stórfurðulegt að almenningur haldi að enginn tími hafi liðið á milli þessa og að fólk furði sig á því að það hafi ekki séð hvað leiddi til skilnaðarins. Eins og einn daginn hafi ég bara verið hamingjusöm á rauða dreglinum [með Liam] og þann næsta í sleik við vinkonu mína á Ítalíu. Hvað í fjandanum! Það var mikill tími þarna á milli sem þið sáuð ekki.“

„Ég vil sálufélaga“

Miley hætti nýverið með söngvaranum og leikaranum Cody Simpson, en þau voru saman í tíu mánuði. Hún er því einhleyp og finnst það fínt.

„Ég þarf ekki á sambandi að halda núna. Þetta er stór stund fyrir mig. Ég hef ekki verið einhleyp síðan árið 2015. Ég hef verið einhleyp í nokkra mánuði hér og þar en ekki í langan tíma,“ segir hún og bætir við að hún hafi nýtt tímann ein til að horfa inn á við. Hún hefur til að mynda breytt hugmyndum sínum um hinn fullkomna maka.

„Ég vil sálufélaga,“ segir hún og bætir við að hún leiti að eldri maka.

„Mennirnir í lífinu mínu hafa sagt mér að ég sé köld, að ég sé köld tæfa því ég fer þegar allt er búið. Ég þarf ekki karl eða konu til að hugsa um mig. Ég get hugsað um mig sjálf því ég á peninga og ég á allt sem ég þarf til að hugsa um sjálfa mig. Ég vil að maki minn sé fær um að sjá um sig sjálfur.“

Viðtalið í heild sinni má hlusta og horfa á hér fyrir neðan: