Stórleikarann Matthew McConaughey þarf vart að kynna, en aðdáendur hans fá að kynnast nýrri hlið á honum í æviminningum hans, Greenlights, sem kom út í gær, þriðjudaginn 20. október.

Í bókinni fer hann yfir vægast sagt skrautlega ævi, stormasamt samband foreldra sinna og hjónabandið með eiginkonu sinni, Camilu Alves.

Bókin kom út í gær.

Tók við keflinu af Hugh Grant

McConaughey kom í heiminn árið 1969 og var yngstur þriggja barna foreldranna James McConaughey og Mary Kathlene McCabe.

„Faðir minn var ekki viðstaddur þegar ég fæddist. Hann hringdi í móður mína og sagði: Eina sem ég vil segja er að ekki skíra hann Kelly ef þetta er strákur,“ skrifar leikarinn í byrjun bókarinnar.

McConaughey fékk stóra tækifærið í Hollywood í kvikmyndinni Dazed and Confused árið 1993. Hans einkennismerki framan af voru rómantískar gamanmyndir, til dæmis The Wedding Planner, How to Lose a Guy in 10 Days, Failure to Launch og Fool’s Gold. Hann segir það hafa verið meðvitaða ákvörðun að taka að sér hlutverk í slíkum myndum.

„Rómantískar gamanmyndir voru einu myndirnar mínar sem slógu alltaf í gegn í kvikmyndahúsum sem gerði það að verkum að þær voru einu myndirnar sem tryggðu mér góða innkomu,“ skrifar hann. „Ég naut þess persónulega að geta gefið fólki níutíu mínútna rómantískt hlé frá stressinu í lífinu – tíma þar sem fólk þurfti ekki að hugsa um neitt, aðeins horfa á strák elta stelpu, detta, standa aftur upp og ná stelpunni á endanum. Ég tók við keflinu af Hugh Grant og ég hljóp með það.“

Leikarinn í hlutverki sínu í Dazed and Confused.

Kúgaður og misnotaður

McConaughey byrjar bókina á að ljóstra upp um ýmislegt sem fólk veit hugsanlega ekki um hann, til að mynda fyrstu kynlífsreynsluna sína, sem mætti kalla kynferðisbrot.

„Ég var kúgaður í að stunda kynlíf í fyrsta sinn þegar ég var fimmtán ára. Ég var viss um að ég færi til helvítis fyrir að stunda kynlíf utan hjónabands,“ skrifar hann. Þá segir hann einnig frá því að maður hafi brotið á honum kynferðislega þegar hann var átján ára er hann lá „meðvitundarlaus í sendiferðabíl.“

„Mér leið aldrei eins og fórnarlambi. Ég hef margar sannanir fyrir því að heimurinn sé búinn að leggja á ráðinn um að gera mig hamingjusaman.“

Rifrildi og kynlíf

Æska leikarans var stormasöm, einkum vegna eitrað sambands milli foreldra hans. Heimilið var litað af ofbeldi, en í bókinni rifjar leikarinn upp atvik þar sem móðir hans nefbraut föður hans og ógnaði honum með hníf. Eftir rifrildið stunduðu þau kynlíf.

Ungur McConaughey.

„Þannig áttu foreldrar mínir samskipti. Þetta er ástæðan fyrir því að móðir mín rétti föður mínum boð í sitt eigið brúðkaup og sagði: Þú hefur sólarhring til að ákveða þig, láttu mig vita. Þetta er ástæðan fyrir því að foreldrar mínir giftust þrisvar og skildu tvisvar. Þetta er ástæðan fyrir því að faðir minn braut löngutöng móður minnar fjórum sinnum svo hann gæti losnað við puttann úr andlitinu sínu. Svona elskuðu foreldrar mínir hvort annað.“

Leikarinn segir að hann hafi verið „slys“ eftir að foreldrar hans eignuðust elsta bróður hans, Michael, og ættleiddu bróður hans, Pat.

„Foreldrar mínir voru búnir að reyna að eignast barn svo árum skipti án árángurs þannig að móðir mín hélt að ég væri æxli þar til hún var komin fimm mánuði á leið. Pabbi fór á barinn í staðinn fyrir að koma á sjúkrahúsið daginn sem ég fæddist því hann grunaði að ég væri ekki sonur hans. Sem ég er.“

Faðir leikarans lést árið 1992, í miðjum samförum við móður hans.

„Við urðum vinir þetta kvöld“

Foreldrar hans beittu ekki aðeins hvort annað ofbeldi heldur segir McConaughey þau hafa lamið hans, eitt sinn fyrir að stela pítsu.

„Ég sé oft eftir hvað ég gerði, eða gerði ekki, það kvöld. Ég fékk tækifæri á vígslu, að verða strákur eða maður í hans augum. En ég fékk sviðsskrekk, pissaði í buxurnar og féll á prófinu,“ segir leikarinn um atvikið þegar faðir hans lamdi hann fyrir að stela pítsunni.

Síðar í bókinni segir McConaughey frá því að hann hafi sannað sig fyrir föður sínum þegar hann lamdi útkastara á skemmtistað.

„Vígslan mín varð það kvöld. Pabbi hleypti mér að sér. Þetta var kvöldið þar sem ég varð sonur hans og maður í hans augum. Við urðum vinir þetta kvöld.“

Ætlaði að gerast munkur

McConaughey var átján ára þegar hann gerðist skiptinemi í Ástralíu. Það ár vann hann við ýmislegt og tók mjög afdrifaríkar ákvarðanir.

„Ég var í sjálfskreppu og þurfti mótstöðu til að finna mig í lífinu. Ég þyrfti að yfirstíga eitthvað, ég þurfti aga, finna fyrir tilgangi þannig að ég gæti haldið geðheilsunni á þessum skrýtna stað sem ég var á. Ég ákvað að gerast grænmetisæti,“ segir leikarinn og bætir við að hann hafi stundum fengið sér kálhaus með tómatsósu í kvöldmat og byrjaði að hlaupa mikið. Á einum tímapunkti var hann aðeins rúmlega sextíu kíló.

„Ég varð mjög grannur. Ég ákvað líka að halda mig frá kynlífi restina af árinu, en enn voru níu mánuðir eftir af því. Ég trúði því að lífsköllun mín væri að verða munkur. Ég gerði áætlanir um að fara til Suður-Afríku árið eftir og frelsa Nelson Mandela.“

Hann hugsar hlýtt til þessa tíma og telur veruna í Ástralíu hafa mótað hann.

„Þetta var árið þar sem ég fann sjálfan mig því ég neyddist til þess.“

Orðin sem elta hann

Áður en McConaughey sló í gegn í Dazed and Confused komst hann á samning hjá umboðsskrifstofu í Texas og vann sem handamódel. Í Dazed and Confused fæddust einkennisorð leikarans: „Alright, alright, alright“ í atriði sem var algjörlega spunnið á staðnum.

„Nú, 28 árum seinna, elta þessi orð mig út um allt. Fólk segir þau. Fólk stelur þeim. Fólk klæðist þeim á höttum eða bolum. Fólk hefur þau húðflúruð á handleggi sína eða læri. Þessi þrjú orð voru fyrstu orðin sem ég sagði á fyrsta degi í starfi sem ég hélt að yrði ekkert nema áhugamál en breyttist í starfsferil.“

McConaughey segist hafa átt erfitt með það þegar að frægðin bankaði á dyr. Einn daginn fékk hann 99 nei og eitt já en þann næsta 99 já og eitt nei úr áheyrnarprufum.

„Hvað var raunverulegt? Hvað var það ekki? Himnarnir opnuðust og það var erfitt að finna fyrir jörðinni undir fótum mínum,“ segir hann. Á þessum tíma átti hann í erfiðu sambandi við móður sína því hún var hrifnari af frægðinni en honum. Samband McConaughey við Guð varð einnig stormasamt og á einum tímapunkti eyddi hann 22 dögum við Amasónfljót eftir að hann dreymdi að hann væri að fljóta niður fljótið.

„Ég var enn í sjálfskreppu og sakbitinn yfir syndum fortíðarinnar, ég var einmana og bauð við félagsskapnum mínum, bauð við mér sjálfum,“ segir hann og bætir við að hann hafi verið alsnakinn á þessum tíma, „barn Guðs.“ Eftir þessa ferð tók hann við hlutverki í kvikmyndinni Contact þar sem hann lék á móti Jodie Foster.

Hætti rómantískum gamanmyndum

Eftir gjöfulan feril í rómantískum gamanmyndum á fyrsta áratug þessarar aldar íhugaði leikarinn að hætta í leiklistinni.

„Ég óx meira sem manneskja á ferðalögum mínum en í leiklistinni. Ég elskaði sölumennsku, menntun, tónlist og íþróttir. Ég íhugaði að skipta um starfsvettvang og byrja að skrifa smásögur og ferðasögur, snúa mér að auglýsingabransanum eða verða kennari, tónlistarmaður eða fótboltaþjálfari. Ég var ekki viss.“

McConaughey hringdi í umboðsmanninn sinn haustið 2008 og sagðist vera hættur að leika í rómantískum gamanmyndum.

„Ég bleytti gólfið með tárum mínum þegar ég talaði við Camilu um þessa ákvörðun. Við grétum. við báðum til Guðs. Við gerðum samning. Skopskynið hjálpaði mér að lifa af. Sterk kona mér við hlið gerði mig staðfastan. Barnungur sonur og nýfædd dóttir héldu mér uppteknum. Allt þetta saman hjálpaði mér í gegnum sjálfskipað hlé frá Hollywood.“

Fann hina einu réttu

McConaughey kynntist eiginkonu sinni Camilu eftir að hann dreymdi um að vera 88 ára gamall piparsveinn.

Hjónin á góðri stundu.

„Ég hafði kynnst, eytt tíma með og deitað yndislegar konur í lífi mínu og ég er enn vinur sumra í dag. En ekkert samband entist. Á miðjum fertugsaldrinum var ég enn að leita að lífsförunaut, besta vini, tilvonandi móður barnanna minna. Ég var að leita að meiru, ég var að leita að hinni einu réttu, ég var að leita að henni. Þannig að ég hætti að leita að henni. Þá kom hún,“ segir hann. Leikarinn hitti Camilu fyrst árið 2006 og þau gengu í það heilaga árið 2012. Þau eiga þrjú börn saman fædd árið 2008, 2010 og 2012.

„Fimmtán árum seinna er hún enn eina konan sem mig langar að fara á stefnumót með, sofa við hliðina á og vakna með.“

Fyrsti Óskarinn

Það kom að því að McConaughey sneri aftur í leiklistina en þá í myndum á borð við The Lincoln Lawyer, Killer Joe, The Paperboy og Dallas Buyers Club. Fyrir hlutverk sitt í þeirri síðastnefndu hlaut hann sín fyrstu Óskarsverðlaun. Í þeirri mynd leikur McConaughey Ron Woodroof, sem smitaður er af AIDS, og þurfti leikarinn að léttast mikið áður en tökur hófust.

„Ég var rúm áttatíu kíló þegar að tökur hófust þannig að ég þurfti að léttast mikið. Fimm mánuðum áður en tökur hófst þá byrjaði ég að léttast,“ segir hann. Í bókinni segir hann frá því að hann hafi borðað þrjár eggjahvítur í morgunmat, 140 grömm af fiski og bolla af gufusoðnu grænmeti í hádegismat og eins mikið vín og hann vildi í kvöldmat.

McConaughey var ekkert nema skinn og bein í Dallas Buyers Club.

„Við gerðum Dallas Buyers Club fyrir 4,9 milljónir dollara á 25 dögum. Við báðum ekki um leyfi. Við kveinkuðum okkur ekki. Við tókumst á við áskorun. Ég var léttastur 61 kíló.“

Í lok bókarinnar ljóstrar leikarinn því upp að hann lifi enn eftir lista yfir tíu markmið sem hann gerði árið 1992. Hann hefur náð þremur að þessum markmiðum; að verða faðir, finna og halda konu og vinna Óskarsverðlaun fyrir bestan leik í aðalhlutverki. Hann segir hins vegar ekkert um hin sjö markmiðin.