Nokkrum myndum hefur verið lekið sem sýna búninga knattspyrnuliðsins Manchester United á næstu leiktíð. Hvorki félagið né framleiðandinn Adidas hafa staðfest að myndirnar séu ekta. Myndirnar hafa samt sem áður valdið miklum usla á Twitter.

Um er að ræða rauða treyju með svörtum og gulum blettum, hvítu hálsmáli og einkennismerki Adidas, þremur röndum, á öxlunum.

Á treyjunni er lógó bílaframleiðandans Chevrolet, sem er aðalstyrktaraðili Manchester United, en sá samningur rennur út í enda næstu leiktíðar. Á erminni er síðan lógó bandaríska framleiðandans Kohler.

Það er vægt til orða tekið að segja að myndir af búningnum hafi reitt marga til reiði. Undir færslunni á Twitter, sem sjá má hér fyrir ofan, hafa notendur kastað fram gífuryrðum um búninginn og hér er brot af því besta:

„Er ekki markmiðið að fólk kaupi treyjuna en líti ekki út eins og rútusæti?

„Ég held að neðanjarðarlestin í London vilji hönnunina á lestarsætunum til baka.“

„Það er eins og einhver hafi ælt á búninginn.“

„Það er ekki séns að ég kaupi þetta. Þetta er forljótt!“

„Lítur út eins og rútusæti.“

„Amma mín var einu sinni með svona teppi.“

„Ljótasti búningur sem við höfum verið í.“

„Mér sýnist einhver hafa ælt á rútusæti“

Einhverjir koma búningnum til varnar, en rétt er að árétta að ekki er búið að staðfesta hvort þetta sé í raun og veru nýr búningur Manchester United eða góðlátlegt gabb.