Það er orðið ansi stutt í jólin og um að gera að byrja að æfa sig í smákökubakstrinum!

Þetta eru mömmukökur og er uppskriftin að sjálfsögðu frá móður minni sem klikkar aldrei í bakstrinum!

Ég bakaði þessar kökur fyrst sjálf fyrir nokkrum árum og þurfti ég að baka þær aftur og aftur því þær kláruðust jafnóðum. Á einhvern undarlegan hátt náði heimilisfólkið að þefa upp mömmukökudunkana og spændu þær í sig. Sem er bara yndislegt því ég elska þegar kökurnar mínar hitta beint í mark.

Ég vil skora á þá sem hafa aldrei bakað mömmukökur að baka þær núna fyrir jólin. Þær eru bara dásamlegar í einu orði sagt!

Mömmukökur

Kökur:

4 bollar hveiti
150 g smjör
150 g sykur
1 bolli síróp
2 tsk engifer
1 tsk matarsódi
1 egg

Krem:

100 g mjúkt smjör
200 g flórsykur
2 tsk vanilludropar
7-8 msk mjólk

Aðferð:

Byrjum á kökunum. Hitið smjör, sykur og síróp saman í potti yfir meðalháum hita þar til allt er bráðið og búið að blandast saman. Hér þarf ekki að hræra mikið í blöndunni. Kælið. Hrærið egg saman við smjörblönduna og síðan restina af hráefnunum. Hnoðið deigið vel saman og kælið það í ísskáp yfir nótt en það sleppur að kæla það í 3 klukkutíma. Hitið ofninn í 200°C og setjið bökunarpappír á ofnplötur. Fletjið deigið út en mér finnst kökurnar betri ef þær eru í þynnra lagi. Skerið út form eða með glasi og bakið þar til kökurnar hafa brúnast, 7-9 mínútur. Leyfið kökunum að kólna alveg áður en kremið er sett á.

Svo er það kremið. Hrærið smjör og flórsykur vel saman. Bætið vanilludropum og mjólk saman þar til kremið er orðið hæfilega þykkt. Smyrjið þessu á helminginn af kökunum og notið hinn helminginn til að loka þeim þannig að úr verði eins konar samloka.