Ég fann þessa uppskrift á vefsíðunni Women’s Health og gjörsamlega féll fyrir henni. Þessi stykki eru tilvalinn morgunmatur, en auðvitað ekki á hverjum degi þar sem það er ansi mikið hunang í þeim. En svona, spari!

Morgunmatur meistaranna

Hráefni:

1 bolli haframjöl
1/2 bolli hunang
1/2 bolli hnetusmjör að eigin vali
1 msk kókosolía
3 1/2 bolli morgunkorn að eigin vali

Aðferð:

Hitið ofninn í 180°C og smyrjið kassalaga form, sirka 20×20 sentímetra stórt. Setjið smjörpappír á ofnplötu og dreifið haframjölinu á plötuna. Bakið í 10 til 15 mínútur. Setjið hunang, hnetusmjör og kókosolíu í pott og hitið yfir lágum hita. Hrærið þar til allt er blandað saman eða í um 2 mínútur. Setjið morgunkorn og haframjöl í stóra skál og hrærið. Hellið hnetusmjörsblöndunni saman við og blandið vel saman. Setjið blönduna í formið og ýtið henni niður. Frystið í að minnsta kosti 45 mínútur. Skerið í bita og njótið.