Það er nóg um að vera á Netflix í janúar og margt væntanlegt á streymisveituna, bæði gamalt og nýtt.

Hér er brot af því sem áhorfendur geta horft á í janúar á íslenska Netflix, en eins og sést kennir ýmissa grasa á listanum.

6. janúar – Surviving Death, heimildaþættir

Hvað gerist eftir að við deyjum? Í þessari þáttaröð er reynt að svara þeirri spurningu og stuðst við sögur fólks, hugmyndir um endurholdgun og hið yfirskilvitlega.

6. janúar – Tony Parker: The Final Shot

Í þessari heimildarmynd er fylgst með lífi körfuknattleikshetjunnar Tony Parker, allt frá því hann var lítill drengur og til dagsins í dag, en engum blöðum þarf um það að fletta að Parker er einn besti, franski körfuboltamaður fyrr og síðar.

7. janúar – Pieces of a Woman

Dramatísk kvikmynd með Vanessa Kirby, Shia LaBeouf, Molly Parker og Ellen Burstyn í aðalhlutverkum. Martha og Sean Carson búa sig undir foreldrahlutverkið en þegar að heimafæðing fer á versta veg tekur sorgin yfir allt og alla.

8. janúar – Inside the World’s Toughest Prisons, sería 5

Tilvalin sería fyrir hámhorf en í þessari seríu er skyggnst inn í lífið á bak við rimlana á Filippseyjum, á Grænlandi og í Suður-Afríku.

8. janúar – Pretend It’s a City

Mínisería þar sem áhorfandi fær að ferðast um götur New York-borgar og hlusta á tal rithöfundarins Fran Lebowitz og leikstjórans Martin Scorsese.

10. janúar – Brooklyn Nine-Nine, sería 6

Vinir okkar á lögreglustöðinni í Brooklyn snúa aftur á Netflix með tilheyrandi ærslagangi. Jake og Amy venjast hjónalífinu og Holt nær sér niður á erkióvini sínum, svo nokkur dæmi séu tekin.

15. janúar – Bling Empire, sería 1

Í þessum raunveruleikaþáttum er fylgst með forríkum einstaklingum í Bandaríkjunum sem eru af asískum uppruna. Sumt í þessum þáttum er svo ótrúlegt að maður trúir varla að það sé satt!

15. janúar – Skyscraper

Mynd frá árinu 2018 með Dwayne Johnson í aðalhlutverki. Hryðjuverkamenn ráðst á hæstu byggingu í heimi og þá þarf öryggisráðgjafi að taka á honum stóra sínum til að bjarga fjölskyldu sinni.

15. janúar – Dawson’s Creek, allar seríur

Loksins, loksins er hægt að detta í gott nostalgíukast með ungri Katie Holmes, James Van Der Beek, Michelle Williams og Joshua Jackson því Dawson’s Creek-seríurnar lenda á Netflix í janúar! Þættirnir voru fyrst sýndir á árunum 1998 til 2003 og slógu rækilega í gegn. I don’t want to wait…

20. janúar – Sightless

Í þessari spennumynd er fylgst með fyrrerandi fiðluleikara sem fyllist grunsemdum um fólkið í kringum sig er hún nær sér eftir árás sem blindaði hana.

22. janúar – Mamma mia! Here We Go Again

Framhald hinnar sívinsælu Mamma mia! frá árinu 2008, en sú síðari kom út árið 2018. ABBA lögin trylla áhorfandann sem fylgjast með Sophie rifja upp fortíð móður sinnar.