Læknirinn Medina Culver frá Bandaríkjunum heldur úti vinsælli Instagram-síðu þar sem hún breiðir út boðskap kvenfrelsis. Í nýlegu myndbandi á síðunni fer hún yfir ýmis skilaboð sem hún hefur fengið í gegnum tíðina með ástæðum af hverju hún ætti ekki að vera læknir.

„Ekki nógu gáfuð,“ er ein ástæðan og önnur er: „Of falleg. Notaðu útlitið til að sjá fyrir þér, ekki heilann.“

Þá hefur fólk einnig sagt að sem kona ætti hún að „einblína á að stofna til fjölskyldu og ganga í hjónaband áður en hún hugar að starfsferli.“

Culver, sem rekur læknastofu í félagi við aðra, segist ekki hlusta á slíkar raddir.

„Við erum umkringd fólki sem segir okkur hvað við getum ekki gert. Vitiði hvað…hættið að hlusta á það,“ segir hún.

Það eru hins vegar margir sem veita lækninum mikinn stuðning og segja hana mikinn innblástur.

Culver er dugleg að lýsa lífi sínu sem læknir á Instagram og hvetja aðrar konur til að láta drauma sína rætast. Hún er einnig óhrædd við að birta myndir og myndbönd úr einkalífinu.

„Fallegar konur geta verið meira en falleg andlit…við getum verið svalir læknar,“ skrifar hún við eina mynd og heldur ótrauð áfram að vera öðrum konum innblástur, þrátt fyrir neikvæðisraddir.