Hvað getur verið betra en silkimjúk ostakaka, trufluð karamellusósa og æðislegt möndlukurl? Bara voðalega fátt.

Til að gera uppskriftina sem auðveldasta keypti ég einhverja gourmet karamellusósu út í búð og sprautaði henni yfir ostakökuna. Það er auðvitað vel hægt að búa til sína eigin karamellusósu eins og ég hef margoft gefið uppskrift að hér á blogginu – til dæmis hér og hér.

Njótið elsku dúllurnar mínar!

Ostakaka með karamellusósu og möndlukurli

Botn:

200 g mulið vanillukex (ekkert krem takk)
40 g smjör
1 tsk instant kaffi

Ostakaka:

500 g mjúkur rjómaostur
300 g sýrður rjómi
150 g sykur
4 egg
1 tsk vanilludropar
1/2 bolli karamellusósa

Möndlukurl:

100 g saxaðar möndlur
50 g sykur
2 msk vatn

Aðferð:

Byrjum á botninum. Hitið ofninn í 150°C og takið til þokkalega stórt eldfast mót eða kökuform. Bræðið smjör og blandið því vel saman við kaffið. Blandið síðan kexinu vel saman við. Þrýstið blöndunni í botninn á forminu.

Svo er það kakan. Blandið öllum hráefnum vel saman, nema karamellusósunni (við notum hana síðar) þar til blandan er létt og ljós. Hellið blöndunni yfir botninn og bakið í 80 mínútur. Slökkvið á ofninum og opnið hann lítillega og leyfið kökunni að kólna inni í ofninum. Sprautið karamellusósunni yfir ostakökuna þegar hún hefur kólnað.

Loks er það möndlukurl. Hitið ofninn í 180°C (þetta er hægt að gera áður en ostakakan er bökuð). Setjið möndlur á bökunarpappírsklædda ofnplötu og ristið í 10 mínútur. Setjið sykur og vatn í pott og hitið yfir meðalhita. Bætið möndlunum út í þegar sykurblandan hefur brúnast lítið eitt og leyfið þessu að malla í 5 mínútur til viðbótar. Skellið möndlunum aftur á bökunarpappírinn og leyfið þeim að kólna. Skreytið ostakökuna síðan með þeim.