Hér eru á ferð dásamlegar Mars-bollakökur sem innihalda kók! Já, þú last rétt – Coca Cola.

Ég veit ekki hvort það er kókið eða bara sjúklegir bökunarhæfileikar mínir en þessar bollakökur eru svo dúnmjúkar og léttar en samt svo ofboðslega seðjandi og ljúffengar. Tala nú ekki um þegar Mars-smjörkremið er komið ofan á þær.

Kókkökur með Mars-kremi

Kökur:

1 bolli Coca Cola
1/2 bolli súrmjólk
230 g mjúkt smjör
1 3/4 bolli sykur
2 stór egg
2 tsk vanilludropar
2 bollar hveiti
1/4 bolli kakó
1 tsk matarsódi

Krem:

4-5 msk rjómi
90 g Mars
3-4 bollar flórsykur
50 g mjúkt smjör

Aðferð:

Byrjum á kökunum. Hitið ofninn í 175°C og takið til möffinsform. Blandið Coca Cola og súrmjólk saman í skál og setjið til hliðar. Blandið smjöri og sykri vel saman. Bætið eggjunum og vanilludropunum úti og hrærið vel. Blandið hveiti, kakói og matarsóda vel saman og blandið við smjörblönduna til skiptis við kókblönduna þar til allt er vel blandað saman. Skiptið deiginu á milli möffinsforma og bakið í 30 til 30 mínútur.

Svo kremið. Saxið Mars-ið niður í bita og setjið í skál. Hitið rjómann í örbylgjuofni í um eina mínútu og hellið síðan yfir Mars-ið. Leyfið þessu að standa í 2 til 3 mínútur og hrærið síðan þar til allt er bráðnað. Núggatið í Mars-inu getur verið smá hausverkur en það þarf ekki allt að bráðna saman við. Blandið flórsykri og smjöri vel saman. Byrjið á því að nota bara þrjá bolla af flórsykri. Hellið Mars-sósunni saman við og hrærið vel. Ef kremið er of þunnt skulið þið bæta meiri flórsykri við. Skreytið kökurnar og njótið.