Lögreglukona í Georgíu í Bandaríkjunum lenti í ansi spaugilegu atviki fyrir helgi.

Lögreglukonan var við störf og þurfti að afhenda pappíra á einkaheimili. Þessi lögreglukona skilur yfirleitt hurðina á bílnum eftir opna þegar hún gerir slíkt því hún hefur lent í því að þurfa að hlaupa undan grimmum hundum.

„Hún bjóst aldrei við eða leiddi hugann að því sem gæti gerst þennan dag,“ stendur við myndband af atvikinu sem lögreglan birtir á Facebook.

Eins og sést í myndbandinu laumaði geit sér inn í framsæti á lögreglubílnum og gæddi sér á pappírum lögreglukonunnar. Þegar að geitin yfirgaf loksins bifreiðina með skoltinn fullan af pappírum þá skallaði hún lögreglukonuna í hnén, með þeim afleiðingum að lögreglukonan datt kylliflöt á jörðina.

„Þó hún hafi fallið til jarðar þá slasaðist hún ekki í atvikinu. Við gátum öll hlegið aðeins að þessu og við vonum að þið gerið það líka,“ skrifar lögreglan.