Heimsfaraldur COVID-19 rústaði brúðkaupsplönum Beatrice prinsessu og unnusta hennar, Edoardo Mapelli Mozzi, en turtildúfurnar ætluðu að gifta sig í maí. Þau ákváðu hins vegar að láta pússa sig saman í laumi klukkan 11 í morgun, föstudaginn 17. júlí.

Fréttirnar voru staðfestar með tilkynningu frá Buckingham-höll en brúðkaupið fór fram í Windsor. Meðal þeirra sem mættu voru Elísabet Bretadrottning og eiginmaður hennar, Filip prins, hertoginn af Edinborg.

Beatrice og Edoardo sáust fyrst saman í mars í fyrra og tilkynntu um trúlofun sína hálfu ári siðar. Fjölskyldur þeirra hafa ekki tjáð sig opinberlega um leynilega brúðkaupið en foreldrar Beatrice, Andrew prins og Sarah Ferguson, voru himinlifandi þegar að fregnir af trúlofuninni bárust á síðasta ári.

„Við erum heppnir foreldrar yndislegrar dóttur sem fann ást og félagsskap í yndislega tryggum vin og heiðarlegum, ungum manni. Við óskum þeim velfarnaðar,“ sögðu þau þá í fréttatilkynningu.