Þeir sem eiga systkini vita að það getur oft myndast afar sérstakt samband á milli bræðra og systra. Samband sem þolir bæði þunnt og þykkt og allt þar á milli.

Maður að nafni Will Claussen setti myndband á samfélagsmiðla á dögunum sem sýnir svo sannarlega hve dásamlegur þessi systkinakærleikur getur verið.

Will gengur bráðum í hjónaband og ákvað að biðja litla bróður sinn Henry, um að vera svaramaðurinn sinn á mjög óvenjulegan hátt. Will kom fyrir flösku með skilaboðum í sem Henry fann, en í skilaboðunum bað Will hann um að vera svaramaður í brúðkaupinu.

Eins og sést í meðfylgjandi myndbandi stóð ekki á svörunum hjá Henry og hann sagði samstundis já. Henry er með Downs heilkenni og hefur samband þeirra bræðra ávallt verið mjög sterkt. Will var sá fyrsti sem skildi Henry þegar hann byrjaði að tala og því hafa þeir verið nánast óaðskiljanlegir síðan þeir voru litlir pjakkar.

Við mælum með að allir horfi á þetta myndband til að fylla daginn af gleði og hlýju.