Þann 12. mars árið 2004 var lögregla kölluð að yfirgefinni skrifstofubyggingu í Fresno í Kaliforníu. Þær upplýsingar sem lögreglan hafði um útkallið var að um forræðisdeilu væri að ræða. Lögregla talaði við Ruby Ortiz, Sofina Solorio og nokkra fjölskyldumeðlimi þeirra á svæðinu. Ortiz og Solorio voru í miklu uppnámi og staðhæfðu að börnum sínum væri haldið í gíslíngu í byggingunni. Þær fullyrtu að það væri frændi þeirra, Marcus Wesson, sem héldi börnunum föstum og voru handvissar um að hann ætlaði að vinna börnunum mein.

Lögreglan bankaði upp á og talaði við Wesson, sem var pollrólegur. Hann virtist samvinnuþýður og bað einungis um að kveðja börnin áður en hann leyfði þeim að sleppa úr prísundinni. Wesson gekk aftur inn í húsið og bað lögregluþjónana að bíða. Lögreglan hafði ekki heimild til að fara inn í húsið og beið því þolinmóð. Tæplega einum og hálfum tíma síðar gekk Wesson út alblóðugur. Inni í húsinu voru níu lík. Öll fórnarlömbin höfðu verið skotin á milli augnanna.

En hvernig gerist það að einn maður heldur níu börnum læstum inni í húsi og myrðir þau síðan? Sú saga er öllu lengri.

Æska lituð af ofbeldi

Marcus Wesson breytti heimilinu í sértrúarsöfnuð.

Wesson fæddist í Kansas í ágúst árið 1946. Að hans sögn var móðir hans trúarofstækismanneskja í kirkju sjöunda dags aðventista og faðir hans alkóhólisti og ofbeldismaður. Móðir hans var ströng í trúarlegu uppeldi sínu og hýddi börnin með rafmagnssnúru ef þau hlýddu ekki. Faðir hans yfirgaf fjölskylduna þegar að Wesson var barnungur. Wesson hætti í grunnskóla og gekk í herinn. Hann sinnti herskyldu í Evrópu en þegar hann sneri aftur til Bandaríkjanna nokkrum árum síðar hætti hann í hernum og felldi hugi með Rosemary Maytorena, giftri konu sem bjó í San Jose í Kaliforníu. Maytorena skildi við eiginmann sinn og Wesson flutti inn með henni og börnum hennar átta. Wesson vildi ólmur eiga svo stóra fjölskyldu því hann trúði að hann gæti vísað þeim veginn, líkt og fjárhirðir með ær sínar.

„Kvæntist“ stjúpdóttur sinni

Maytorena og Wesson eignuðust saman son árið 1971. Á þeim tíma hafði Wesson hafið samband með einni af dætrum Maytorena, Elizabeth. Hann taldi henni trú um að Guð hefði valið hana til að vera brúður hans. Wesson gekk að eiga Elizabeth árið 1974, þegar að hún var aðeins átta ára gömul. Brúðkaupið fór fram á heimili Wesson og Maytorena og var að sjálfsögðu ekki löglegt. Þá var Wesson 27 ára. Maytorena reyndi lítið sem ekkert að vernda dóttur sína og bað einfaldlega um að Wesson og Elizabeth myndu bíða með löglegt brúðkaup þar til Elizabeth væri orðin táningur. Wesson byrjaði að beita Elizabeth kynferðislegu ofbeldi þegar hún var tólf ára og þegar hún var fimmtán ára varð hún ólétt. Þá gengu Wesson og Elizabeth í löglegt hjónaband. Fjórum mánuðum síðar fæddist þeim barn, en þau eignuðust alls tíu börn saman. Eitt lést úr vöggudauða.

Elizabeth með eitt af börnunum sem hún eignaðist með Wesson. Skjáskot: YouTube.

Ein af yngri systrum Elizabeth setti sín sjö börn í fóstur hjá henni og Wesson því hún sagðist ekki vera fær um að hugsa um þau. Þetta var því orðið ansi stórt heimili. Þrátt fyrir að þurfa að fæða alla þessa fjölskyldumeðlimi sótti Wesson aldrei vinnu heldur lét börnin vinna nótt og dag og hirti öll launin þeirra. Fjölskyldan bjó oft í yfirgefnum byggingum, hreysum eða bátum.

Barsmíðar og sifjaspell

Wesson var mjög ofbeldishneigður í garð Elizabeth og barnanna. Hann bannaði Elizabeth að taka þátt í uppeldi barnanna og kenndi þeim heima, sér í lagi vegna þess að hann trúði því að heimurinn væri fullur af synd og því þyrfti hann að einangra fjölskylduna. Námsefnið var handskrifuð Biblía, sem Wesson bjó til sjálfur. Aðalefni hennar var að Jesús Kristur væri vampíra. Wesson sagði börnunum að hann sjálfur væri Guð og lét þau ávarpa sig „herra“ eða „drottinn.“ Hann kenndi börnunum að búa sig undir harmageddon, endalok heimsins, og sagði að allar stúlkurnar væru framtíðareiginkonur sínar. Hann aðskildi strákana og stelpurnar því hann óttaðist að þau myndu dragast að hvort öðru á kynferðislegan hátt. Wesson braut kynferðislega á tveimur dætrum sínum og þremur frænkum. Hann „kvæntist“ þeim öllum á heimili sínu þegar þær voru á aldrinum sjö til níu ára. Allar fimm stúlkurnar urðu óléttar, en talið er að Wesson hafi samtals eignast átján börn með sjö stúlkum, en fimm af þessum sjö voru dætur hans.

Tvær af dætrum Wesson: Rosie Solorio og Kiani Wesson, við réttarhöld föður síns. Mynd: Skjáskot / Getty Images.

Wesson barði konurnar og börnin á heimilinu oft með rafmagnssnúrum eða hafnaboltakylfum ef þau óhlýðnuðust. Brotin þurftu alls ekki að vera stór, enda Wesson líkt og djöfull í mannsmynd. Sonur hans, Serafino, hefur sagt frá því að hann hafi eitt sinn verið laminn í þrjátíu daga í röð fyrir að stela einni skeið af hnetusmjöri. Þá hefur fyrrnefnd Sofina einnig sagt að Wesson hafi eitt sinn barið eins mánaðar gamalt ungbarn því það hætti ekki að gráta. Sofina reyndi eitt sinn að sleppa af heimilinu. Þá stakk Wesson hana í bringuna.

Wesson heilaþvoði eiginkonur sínar og börn og stjórnaði heimilinu líkt og það væri sértrúarsöfnuður. Hann var heillaður af öðrum leiðtogum sértrúarsafnaða og hafði óbeit á yfirvöldum. Hann var meira að segja búinn að neyða konurnar og börnin í sjálfsvígssamkomulag sem fólst í því að mæðurnar myndu drepa börnin sín og síðan sig sjálfar ef yfirvöld reyndu að fjarlægja börn af heimilinu. Wesson hélt mánaðarlega fundi á heimilinu til að fara yfir þennan samning.

Hrúga af líkum

Flestir fjölskyldumeðlimir voru vanir þessum lifnaðarháttum, enda þekktu þeir ekkert annað. Tvær frænkur Wessons, þær Ruby Ortiz og Sofina Solorio, vildu hins vegar sleppa úr þessu eitraða ástandi. Wesson samþykkti með semingi að þær mættu fara, en eingöngu ef þær skildu börnin sín eftir. Þær samþykktu það. Ortiz og Solorio gerðu sér smátt og smátt grein fyrir hve mikið skrímsli Wesson var þegar þær byrjuðu að fóta sig í heiminum utan veggja Wesson-heimilisins. Þær fengu því nokkra fjölskyldumeðlimi með sér í lið og héldu að heimili Wessons þennan örlagaríka dag, 12. mars árið 2004, í þeirri von að frelsa restina af fjölskyldunni.

Lík borin úr af heimili Wesson.

Eins og áður segir voru fórnarlömb Wessons þann dag níu talsins, þar á meðal synir Ortiz og Solorio, sem báðir voru sjö ára gamlir. Yngsta fórnarlamb Wessons var eins árs en það elsta 25 ára. Þegar að Wesson kom út alblóðugur gaf hann sig strax fram. Nágrannar í hverfinu sögðust hafa heyrt í skothvellum innan hússins þann tíma sem lögreglan beið. Lögregluþjónar segja hins vegar að þeir hafi ekki heyrt neina skothvelli. Málið er talið vera eitt versta fjöldamorð sögunnar í Fresno og lögreglumennirnir sem mættu á vettvang þurftu áfallahjálp í kjölfar útkallsins. Það sem blasti við þeim inni í húsinu var hrúga af líkum inni í herbergi sem var fullt af gömlum líkkistum.

Réttað var yfir Wesson ári síðar og sagðist hann alsaklaus. Hann hélt því fram að elsta fórnarlambið, Sebhrenah April Wesson, hefði drepið öll börnin og síðan sig sjálfa. Engin sönnunargögn studdu þessa frásögn Wessons. Wesson var ákærður fyrir öll morðin, sem og nauðgun og sifjaspell. Þann 27. júní árið 2005 var hann dæmdur í 102 ára fangelsi fyrir nauðgun og sifjaspell. Hann fékk dauðarefsinguna fyrir morðin. Hann dúsir nú í fangelsinu í San Quentin en í mars í fyrra var dauðarefsing í Kaliforníu afnumin og því lifir Wesson enn. Hann getur hins vegar aldrei sótt um reynslulausn.

Heimildir:

https://en.wikipedia.org/wiki/Marcus_Wesson
https://abcnews.go.com/Primetime/marcus-wesson-mass-murder-surviving-family-speaks-abuse/story?id=11089648
https://medium.com/california-dreaming/marcus-wesson-vampire-king-of-fresno-c362bb15ec7b