Oft hefur því verið fleygt fram að smá mygla á mat skaði engan og hægt sé að skera hana af til að njóta matarins. Svarið er hins vegar ekki svo einfalt.

Inni á vef Leiðbeiningastöðvar heimilanna er að finna mikinn og góðan fróðleik um myglu í mat og hvenær á að henda ýmsum matvælum ef mygla er sjáanleg.

Hér fyrir neðan eru matvæli listuð upp og hvernig á að bregðast við ef mygla finnst í þeim, en á vef Leiðbeiningastöðvarinnar er einnig að finna góð ráð um hvernig á að geyma mat til að forðast myglu.

Vatnsmikið grænmeti og ávextir

Ef þú finnur myglu á vatnsmiklu grænmeti eins og til dæmis á agúrku og tómötum og vatnsmiklum ávöxtum einsog vínberjum, appelsínum og plómum ættir þú alltaf að fleygja þeim.

Epli og perur

Epli og Perur geta innihaldið sveppaeitrið Patulin. Til að sjá hvort að ávöxturinn er smitaður skal skera eplið eða peruna í tvennt og sjá hvort það er þráður af svepp í kjarnanum.

Minna vatnsríkt grænmeti og ávextir

Hér erum við að tala um til dæmis gulrætur og kál. Ef það er mygla er í lagi að fjarlægja mygluna og skola síðan og nýta það sem er heilt.
 Ef gulrætur eru hvítar og slímugar er um að ræða bakteríur en ekki mygla. Bakteríurnar eru fljótar að breiða úr sér en það er ekki hættulegt að borða það. Það er því í lagi að skola og skera það í burtu. Getur þó haft áhrif á bragð.

Ef gulrótin er hins vegar með gráleitum blettum, gæti verið um myglusvepp að ræða. Þó er það að öllum líkindum ekki sveppur sem gefur frá sér eiturefni og á því að vera í lagi að skera það í burtu. Gulrótin gæti þó haft skrýtið málm bragð. Ef einstaka gulrót í pokanum er slímug eða mygluð er nóg að henda þeim slæmu í burtu og skola vel restina sem er í pokanum. (hendið pokanum) (Að sjálfsögðu best að kaupa í lausu og sleppa plastinu)

Brauð

Ef þú sérð myglublett á brauðsneið ætti alltaf að henda öllum pokanum. Myglusveppurinn gæti hafa breiðst út langt inní brauðsneiðarnar þó myglan sjáist ekki. 
Þjóðsagan sem við mörg hver fengum að heyra sem krakkar um að myglan á brauðinu væri bara holl því það væri pensilín í henni, er því rakinn vitleysa!!

Sultur

Ef þú sérð myglu í sultukrukkunni ætti alltaf að henda allri krukkunni. Það er ekki nóg að skafa mygluna bara í burtu. Myglan getur vel hafa breiðst út alveg niður í botn.

Hnetur

Við ættum alltaf að henda mygluðum hnetum. Sérstaklega ættum við að skoða hvort það sé mygla í miðjunni á hnetum, til dæmis í Brasilískum hnetum.

Mjólkurvörur

Ef þú finnur myglu í mjólkurvörum ætti alltaf að henda þeim. Hvort sem er rjómi, smurostur eða mjúkur ostur eins og Brie eða Camembert eða smjör. Þó er í lagi að skera myglu í burtu af hörðum ostum. Skera þarf um einn sentimetra frá myglublettinum.

Sveppir

Ef hvít himna er á rót sveppa þá er það ekki mygla heldur þeirra eigin mycelium. Það má einfaldlega skera hvítu himnuna af ásamt ögnum af jarðvegi.

Kjöt

Ef kjöt er myglað ætti alltaf að henda því. Hvort sem það er kjötsneið, lifrarkæfa eða hakkað kjöt.