Lauren Vũ er 21 árs gömul kona sem er alin upp á Íslandi af víetnömskum foreldrum. Lauren er sannkölluð athafnakona þó ung að árum sé. Hún opnaði nýverið snyrtistofuna Beauty By Lauren en rekur einnig netverslunina Cherries. Nýjasta ævintýri Laurenar er að hanna og framleiða sundföt undir merkjum Cherries, einkum vegna þess hve lítið úrval sé til af sundfötum á Íslandi. Lauren er mikil talskona þess að líða vel í eigin skinni og koma til dyranna eins og maður er klæddur.

„Klæðaburður er ein af mörgum leiðum fyrir fólk til að tjá sig og lýsa sjálfum sér. Stundum getur það verið erfitt hér heima,“ segir Lauren og heldur áfram. „Mér persónulega finnst að það mætti vera meiri fjölbreytni og úrval á Íslandi af fötum, sérstaklega sundfötum. Ég hef oft átt samræður við kúnnana mína á snyrtistofunni um þetta og þeir er oftast sama sinnis. Það er erfitt að vera öðruvísi á Íslandi. Erfitt að versla föt.“

Lauren hefur mikinn áhuga á viðskiptalífinu og ætlar sér stóra hluti með Cherries. Hún stefnir á að auka úrval af alls kyns fatnaði á síðunni og er einnig að vinna í „plus size“-línu. Lauren er hörkudugleg og þakkar því að hafa alltaf farið sínar eigin leiðir.

„Síðan ég var lítil hef ég gert það sem mér sýnist. Ég var oft send í skammarkrókinn út af því,“ segir hún. Á fullorðinsárum hefur hún einnig orðið fyrir aðkasti sem hefur gert hana sterkari. „Ég hef orðið fyrir alls konar neteinelti þar sem fólk er að dæma mig fyrir hvernig ég klæði mig. Það er ekkert sem ég tek inná mig. Ég tek því sem hrósi. Það er erfitt að vera ekki eins og allir aðrir, en ef þú tekur skrefið er erfiðara að vera ekki eins og þú sjálfur.“

Lauren stefnir hátt, ekki bara með netverslunina Cherries heldur í viðskiptalífinu almennt.

„Ég hef mjög mikinn áhuga á rosalega mörgum hlutum sem oftast eru tengdir inn í viðskiptalífið. Það eru enn ótal margir hlutir sem mig langar að gera, upplifa og prófa. Mér finnst lífið bara vera svo stutt og við erum öll hér til að upplifa og njóta ferðalagsins. Draumurinn minn í lífinu er að halda áfram að gera allt sem mér sýnist og dettur í hug.“