Gott er að byrja á að finna sér fasteignasala, velja einhvern sem er með góða reynslu og hefur tíma til að sinna þér og þinni eign. Þú sest svo niður með honum og gengur frá söluumboði og öðrum praktískum atriðum; hvernig sýningum og sölu á eigninni er háttað, opið hús, fasteignasali sýnir eignina, hvort eigendur séu á staðnum og svo framvegis.

Verðmat er mjög mikilvægt, það er gott að fá verðhugmynd frá fasteignasalanum þó svo að eigandi hafi ákveðnar hugmyndir. Rétt verð skiptir verulegu máli, góður fasteignasali þarf að finna rétt verð á eignina. Það er engum greiði gerður með þvi að þóknast eiganda og nefna allt of háa tölu til að fá eignina í sölu. Það getur skaðað söluna á eigninni að setja of hátt verð í upphafi. Ef eignin selst á yfirverði þá er það jákvætt en þarf ekki endilega að þýða að ásett verð hafi verið of lágt, heldur að eignin hafi hentað fleiri aðilum akkúrat á þessum tíma.

Þegar þetta er komið þarf að fara yfir eignina og gera hana eins söluhæfa og mögulegt er, án mikils tilkostnaðar. Margt hefur verið nefnt í þessum efnum og hér áður fyrr var oft talað um að gott væri að hafa köku eða mat í ofninum til að fá þetta heimilsilega andrúmsloft. Var þetta sérstaklega nefnt í Ameríku. Undirritaður mælir hins vegar ekkert sérstaklega með bakstri fyrir hverja skoðun.

Í dag fer kynning á eigninni að mestu fram á netinu og eru því góðar myndir mikilvægar. Auðvitað þarf að meta það hverju sinni hversu djúpt þú vilt kynna eignina með myndum og texta. Þú vilt ekki að fólk taki ákvörðun um að koma ekki og skoða eignina út frá myndum og texta. Því er mikilvægt að finna þennan gullna meðalveg og reyna að fá fólk til að koma og skoða eignina. Flestar fasteignasölur nota fagljósmyndara til að taka myndir af eignunum. Áður en ljósmyndari kemur er gott að vera búinn að undirbúa eignina.

Undirbúningur fyrir myndatöku er gríðarlega mikilvægur. Gott að fjarlægja allt auka dót að utan; reiðhjól og jafnvel bíla af plani. Eignin þarf að vera hrein, björt og létta á henni ef þörf er á.

Skoðum þetta aðeins nánar:

Draga frá allar gardínur til að fá sem mesta náttúrulega birtu inn, kveikið öll ljós og kannið með sprungnar perur og svo framvegis. 
 
Léttið á íbúðinni meðal annars með því að taka mottur út ef mögurlegt er, taka út óþarfa hluti, ganga frá snúrum. Íbúðin minnkar við mikið af gólfmottum og húsgögnum, sérstaklega á myndum.
 
Í eldhúsi er gott að létta á borðbekk, taka segla og auglýsingar af ísskápnum, fjarlægja allt ofan af efri skápum. Að sjálfsögðu þarf að passa upp á hreinlæti og að uppvask sé ekki fyrir hendi. 
 
Fjarlægið fjarstýringar og annað laust dót af borðum. Hafið slökkt á sjónvarpi. 
 
Á baðherbergi er gott að fjarlægja sjampóbrúsa, tannkrem, bursta og svo framvegis. Einnig er gott að fjarlægja dót af gólfinu eins og klósettbursta, þvottakörfur, baðvikt og svo framvegis til að fá meira gólfpláss.
 
Búið fallega um rúmin og fjarlægið persónulega hluti eins og náttföt, sloppa og föt. Einnig er gott að taka ofan af skápum sem kunna að vera til staðar.

Ég mæli með því að láta fasteignasala sýna eignina, bæði í sérskoðunum og í opnum húsum. Að þessu sögðu skora ég á ykkur að hafa sambandi ef þið hafið áhuga á að kaupa eða selja fasteign.

Andrés Pétur Rúnarsson
Löggiltur fasteignasali
Eign fasteignasala