Flestir kannast við að sofa illa við og við. Þá bregða margir á það ráð að fá sér rótsterkan kaffibolla um leið og þeir vakna til að halda sér vakandi. Samkvæmt nýrri rannsókn sem birt er í The British Journal of Nutrition eru þetta hins vegar mistök.

Samkvæmt rannsókninni hefur það neikvæð áhrif á blóðsykurinn að drekka koffín áður en maður borðar morgunmat og gæti jafnvel aukið hættu á hjartasjúkdómum og sykursýki.

Það voru lífeðlisfræðingar við Centre for Nutrition, Exercise & Metabolism í háskólanum í Bath í Bretlandi sem framkvæmdu rannsóknina. Rannsóknin fólst í því að hópur af þrjátíu heilbrigðum einstaklingum gengust undir þrjár mismunandi tilraunir.

Í fyrstu sváfu þátttakendur vel og drukku síðan sykraðan drykk þegar þeir vöknuðu, en sykraði drykkurinn endurspeglaði þar sem fólk borðar vanalega í morgunmat. Í annarri tilrauninni sváfu þátttakendur illa og voru látnir vaka í fimm mínútur á hverjum klukkutíma yfir nóttina og fengu síðan sykraðan drykk þegar þeir vöknuðu. Í þriðju tilrauninni sváfu þátttakendur illa en fengu sterkt, svart kaffi hálftíma áður en þeir fengu sykraða drykkinn.

Fylgst var með blóðsykri þátttakenda í öllum þremur tilraununum. Kom í ljós að svefninn hafði engin áhrif á blóðsykruinn. Hins vegar hækkaði blóðsykursmagn um 50 prósent hjá þátttakendum í þriðju tilrauninni sem drukku kaffi fyrir morgunmat.

„Til að einfalda málið má segja að blóðsykurinn okkar sé skaddaður ef það fyrsta sem við látum ofan í okkur á morgnana er kaffi, sérstaklega eftir svefnlausa nótt,“ skrifar prófessorinn James Betts í niðurstöðum rannsóknarinnar. „Þetta er hægt að laga með því að borða fyrst og fá sér síðan kaffi ef mann langar enn í það.“

Betts telur að rannsóknin sé afar mikilvæg, sérstaklega sökum þess að fjölmargir hafa kaffidrykkju sem sitt fyrsta verk á morgnana. Þessi nýja rannsókn bendir sterklega til þess að sá ávani geti skaðað líkamann.