Viðtal Opruh Winfrey við leikkonuna Meghan Markle og Harry prins er á allra vörum. Viðtalið var sýnt vestan hafs á sunnudag og í opinni dagskrá í Sjónvarpi Símans í gærkvöldi.

Í viðtalinu kom ýmislegt fram um ástæður á bak við þá ákvörðun Meghan og Harry að yfirgefa bresku konungsfjölskylduna. Meghan upplýsti að hún hefði glímt við sjálfsmorðshugsanir og kvíða, sem og að ónefndir meðlimir konungsfjölskyldunnar hefðu haft áhyggjur af hörundslit sonar hjónanna, Archie.

Samfélagsmiðlar hafa logað út af viðtalinu og hafa margir velt fyrir sér hvernig samband Meghan og Harry yrði túlkað í geysivinsælu þáttunum The Crown og hver myndi leika Opruh í Netflix-seríunni.

Hins vegar er ekkert útlit fyrir að samband Harry og Meghan muni nokkurn tímann birtast í The Crown. Höfundur þáttanna, Peter Morgan, hefur gefið það út að hann vilji aðeins fjalla um atburði sem gerðust fyrir að minnsta kosti tuttugu árum. Þá hefur það einnig verið staðfest að síðasta þáttaröðin, sú sjötta í röðinni, muni fjalla um atburði í kringum aldamótin 2000. Það þýðir að þátturinn mun ekki einu sinni dekka fyrstu kynni Harry og Meghan.

„Meghan og Harry eru í miðri vegferð og ég veit ekki hvernig það ferðalag endar. Ég óska þeim hamingju en mér líður betur með að skrifa um hlut sem gerðust fyrir að minnsta kosti tuttugu árum síðan,“ sagði Peter Morgan í samtali við Hollywood Reporter á síðasta ári. „Í fortíðinni hafa verið alls kyns hjónabandserfiðleikar. Eiginkonur hafa gifst inn í konungsfjölskylduna og ekki liðið eins og þær væru velkomnar eða eins og þær pössuðu í hópinn. Þannig að það er hægt að segja fullt af sögum án þess að segja sögu Harry og Meghan.“