„Það er frábært að fá svona viðurkenningu. Miklar gleðifréttir einmitt þegar maður þarf á öllum gleðifréttum að halda,“ segir tónlistarkonan Ragna Kjartansdóttir, sem gengur undir rappnafninu Cell7, þegar blaðamaður Fréttanetsins tilkynnir henni að hún hafi unnið yfirburðarsigur í óvísindalegri keppni Fréttanetsins um hver sé besti rappari Íslandssögunnar.

Keppnin fór þannig fram að blaðamaður Fréttanetsins hafði samband við tónlistarfrótt fólk sem valdi hvert um sig þá þrjá íslenska rappara, starfandi eður ei, sem það taldi hafa skarað fram úr í íslensku rappenunni þá og nú, með stuttum rökstuðningi um hvern og einn. Svo fór að fyrrnefnd Cell7 rústaði keppninni á góðri íslensku, þó hennar einkennismerki sé að rappa á ensku.

Stórt skref í tónlistarsögunni

Cell7 var einn af stofnmeðlimum hinnar goðsagnakenndu sveitar Subterranean árið 1997 og ári síðar kom út platan Central Magnetizm með sveitinni. Sveitin sló strax í gegn og kvað við nýjan tón í íslenskri tónlistarsögu. Margir eru á því að meðlimir sveitarinnar hafi unnið mikið brautryðjendastarf þegar kemur að rappsenunni á Íslandi, þó hljómsveitin hafi starfað stutt.

„Fólk tók okkur rosalega vel,“ segir Ragna þegar hún rifjar upp þennan tíma. „Á þessum tíma var hipp hopp senan byrjuð að krauma undir, en þetta var mikil jaðarsena á þessum tíma. Við áttum rosalega farsælan, stuttan feril. Við fundum að við vorum sér á báti og höfðum engan annan til að líta upp til. Við vorum bara sautján ára og hugsuðum ekki beint um okkur sem brautryðjendur. Við vorum bara að spá í að gera kúl og skemmtilega tónlist og hafa gaman. Eftir á að hyggja var þetta stórt skref í tónlistarsögu landsins,“ bætir hún við. Ragna segist ekkert hafa leitt hugann að því að hún væri eini kvenkyns rapparinn á Íslandi á þessum tíma.

„Ég hugsaði aldrei út í að ég væri kvenmaður. Ég var að gera tónlist því það var áhugamál mitt og ástríða. Það eru mikil forréttindi að fá enn þann dag í dag, tuttugu plús árum seinna, að fá að vera á toppnum á meðal þeirra sem eru búnir að harka þvílíkt í þessari senu.“

Gefur út danstónlist með Hildi

Ragna gaf út plötuna Is Anybody Listening? sem Cell7 í fyrra. Sú plata var til að mynda tilnefnd til norrænu Hyundai Nordic tónlistarverðlaunanna. Þetta ár átti því að fara í tónleika, bæði hér heima og erlendis, til að kynna plötuna, en heimsfaraldur COVID-19 setti þau plön á ís.

„Þetta ár var lagt upp þannig að ég átti að gigga oftar en tvisvar í mánuði og búið að læna upp flottu giggári erlendis. Þetta átti að vera einstaklega gott ferðaár fyrir mig sem tónlistarmann. Vonandi geymist það og verður síðar,“ segir Ragna. Hún hefur samt sem áður ekki setið auðum höndum á meðan að heimsfaraldur geisar og vinnur nú að breiðskífu með tónlistarkonunni Hildi Kristínu Stefánsdóttur. Sú plata kemur út á næsta ári.

„Hildur hefur spilað með mér í gegnum tíðina og síðan hóf hún sinn sólóferil en við ætluðum alltaf að gera tónlist saman. Í COVID vorum við í biðstöðu með svo margt og datt því í hug að grípa tækifærið og vinna í tónlist saman. Í dag erum við komnar með sex lög og stefnum á breiðskífu á næsta ári. Tónlistin sem við semjum er danstónlist og mjög frábrugðin sólóverkefnunum okkar,“ segir Ragna. Hún vinnur ekki sem Cell7 með Hildi heldur er komið nýtt nafn á það verkefni, sem Ragna vill þó ekki segja frá alveg strax. Ragna setur Cell7 aðeins á bið á meðan hún vinnur með Hildi en býst við því að landsmenn fái aðra plötu frá rappdrottningunni á næsta ári.

Þróun rapps jákvæð og neikvæð

Í gegnum tíðina hefur Ragna átt helst tvær fyrirmyndir þegar kemur að rappinu – bandarísku tónlistarkonuna Erykuh Badu, oft kölluð drottning neósálartónlistar, og D’Angelo, bandaríska tónlistarmanninn sem einnig er mjög virkur í neósálarsenunni. Aðspurð um þróun rappsenunnar á Íslandi segir Ragna hana mikið hafa breyst síðan að Subterranean var og hét.

„Þetta er orðið sérmarkaður út af fyrir sig. Rappið er orðið popptónlist nútímans. Rappið er alls konar og tónlistin undir rappinu er alls konar. Sú ógeðslega skýra stefna sem grafin var í stein á næntís tímabilinu um hvernig rapp og hipp hopp hljómar gildir ekki lengur. Nú má allt. Nú er öðrum tónlistarstefnum blandað saman við rappið, mun meira en áður fyrr. Hver sem er getur byrjað að rappa í dag,“ segir Ragna. En finnst henni það neikvætt eða jákvætt?

„Bæði. Fyrir „hardcore“ rappara eins og mig er það ekki jákvætt því það skapast offramboð af alls konar og erfiðara er að sigta í gegnum framboðið til að komast að fólkinu sem búið er að harka og slípa sig sem tónlistarmann.“

Lifir af hljóðinu

Ragna lifir ekki af tónlistinni. Hún er einnig hljóðmaður og lifir af því að hljóðhanna fyrir kvikmyndir og sjónvarpsþætti, til dæmis Brot og Ófærð. Það má því segja að hún lifi af hljóðinu. En blaðamaður getur ekki kvatt hana án þess að spyrja hvort að einhver von sé til þess að Subterranean komi saman aftur, þó það væri ekki nema í eitt kvöld.

„Þegar ég gaf út fyrstu plötuna mína fékk ég alla strákana úr Subterranean með mér á útgáfutónleikana og við tókum nokkur lög en ég held að við munum ekki koma saman aftur.“

Hér fyrir neðan má sjá þá sex rappara sem urðu hlutskarpastir í keppni Fréttanetsins um Besta rappara Íslandssögunnar, sem og aðra sem voru nefndir og álitsgjafana.

Bestu rapparar Íslandssögunnar

1. sæti

Cell7

„Ber höfuð og herðar yfir marga íslenska rappara, burtséð frá kyni. Hennar flæði er gersamlega framúrskarandi og sér í lagi takttilfinningin í framsetningu textanna. Öryggið í henni er algert. Hún rappar á ensku og er frábær á því sviði.“

„Er án ef besti rappari sem að Ísland hefur alið af sér. Hún er með ríkan orðaforða, góðar punch línur og svo smooth og áreynslulaust flæði.“

„Er einn fleygasti rappari Íslands, þó svo hún rappi á ensku. Mér finnst tungumálið sem listamaðurinn velur til að tjá sig á ekki skipta öllu máli, svo lengi sem hann/hún geri það vel og viðkomandi hefur gott vald á því, sem hún gerir svo sannarlega. Þetta virkar eitthvað svo áreynslulaust og eðlilegt fyrir hana. Hún er eins og góð blanda af Missy Elliott og Q-Tip, taktföst, eitursvöl og áhugaverð.“

„Þegar ég heyrði í henni fyrst (fyrir svaka mörgum árum) hugsaði ég með mér að loksins væri ég að heyra í alvöru íslenskum rappara sem gæfi erlendum hetjum lítið sem ekkert eftir. Ber enn höfuð og herðar yfir íslenska kollega sína hvað varðar flæði og áreynsluleysi. Best.“

„Cell7 eða Ragna Kjartans er self-made. Hún er einn af brautryðjendum rappsenunnar hér heima, en hún var stofnmeðlimur rappsveitarinnar Subterranean á 10. áratugnum, sem er að margra mati talin fyrsta alvöru rappsveitin hér á landi. En hún hefur gert það gott sóló líka og sker sig að hluta úr rappsenunni þar sem umfjöllunarefni hennar eru ekki um fíkniefni, neysluhyggju, frægð eða kynlíf. Cell7 er fjölbreyttur listamaður, hún rappar með góðu flæði en getur líka sungið. Cell7 er með old-school stíl, einskonar bræðing af austur og vesturströndinni sem fer henni vel.“

„Oft nefnd til sem besti rappari Íslands, fyrr og síðar, og ekki að ósekju. Ótrúlega öruggt flæði og næmi fyrir takti og laglínu og hún skilar sínu alltaf fullkomlega og hertekur lögin einhvern veginn. Getur rappað hratt og af hörku, eða rappsungið eins og engill. Einstök!“

„Cell7 sýnir að rapp er greinilega listform sem á möguleika að lifa lengur en helvítis spons-samningarnir.“

„Það kemst enginn með tærnar þar sem Cell7 er með hælana. Ég var táningur þegar að ég heyrði fyrst í Cell7 og það hefur enginn íslenskur rappari náð að henda henni úr toppsætinu í mínum huga. Þvílíkt náttúrutalent sem er í þokkabót brjálæðislega sjarmerandi manneskja. Einfaldlega langbesti rappari sem Ísland mun einhvern tímann eiga.“

2. sæti

Blaz Roca

„Hjá Blaz ægir öllu saman; Maxaðri greindarvísitölu, göldróttum húmor, réttsýni og mótþróa við (smá)borgaraleg gildi. Hann er svo klár þessi djöfull og rímur hans skemmtilegar að orðfæri að maður getur ekki annað en lagt við eyrun og hlustað hvernig hann klippir sundur ólíkar hugmynd og hendingar úr sortanum sem hann svo hendir aftur saman á slíkum hraða að maður fattar eiginlega ekki hvað hefur gerst í öllum þessum orðum fyrr en lagið er löngu búið, og þá skellir maður uppúr, hálfhissa.“

„Blaz er líklega mikilvægasti aðilinn í íslenskri rappsögu. Mikill persónuleiki og skilar það sér alltaf í lögin hans.“

„Goðsögn í bransanum.“

„Kannski ekki tæknilega sá besti en sá íslenski rappari sem hefur haft mesta útgeislun og sjarma, hvort sem þú fílar hann eða lætur hann fara í taugarnar á þér. Mikil ákefð og ástríða í rappinu, og hann fyllir gjörsamlega út í allar hljóðrásir þegar hann hefur upp raustina.“

3. sæti

Bent

„Orðaleikir á öðru „leveli“ en aðrir í íslensku rappi og með frábært flæði og efnistök.“

„Flott rödd og flæði sem fær hann til að skera sig úr.“

„Bent er af gamla skólanum og er einn af forsprökkum fyrstu bylgju rappsins hér á landi, bæði einn og með sveitinni sinni XXX Rottweiler hundum, sem sigraði Músíktilraunir aldamótaárið 2000. Bent er fyrst og fremst frábær textasmiður, hann er sniðugur og leikur sér að orðunum, sem í gegnum tíðina hafa verið mishugguleg en Bent og hundarnir vöktu athygli fyrir að vera kjaftforir og ferskir. En Bent tekst að beisla óheflað málfar sitt í skáldlega texta en djúp og einstök rödd hans hefur eflaust áhrif þar.“

„Meistari í orðaleikjum og semur tryllta texta. Hann er með munninn fyrir neðan nefið og geggjað attitjúd þegar hann kemur fram.“

4. sæti

Kött Grá Pjé

„Meistari flæðisins á Íslandi hlýtur að vera Kött Grá Pjé. Þvílíkur andskotans orðaforði og kyngimögnuð hugmyndaauðgi. Öllu ægir saman í sturluðu flæði. Geggjuðum hendingum, vísunum, sjálfsíroníu. Nefndu það ekki. Svo flæðir hann um í rythma og grúvar í rímunum eins og Questlove í sauðargæru.“

„Besti rapptextahöfundur landsins og helber helvítis synd hversu lítið af efni hann hefur sent frá sér. Færi létt með að dæla út meistaraverkunum ef hann nennti því.“

„Það þarf ekkert að flækja þetta – hann er einfaldlega bestur!“

„Algjör óslípuð perla í heimi rappsins sem er með tónlistina í blóðina. Mætti koma meira frá honum en kannski er bara gott að manni þyrstir ávallt í meira?“

5.- 6. sæti

Gísli Pálmi

„Breytti leiknum og er upphafið að upprisu rappsins á öðrum áratug þessarar aldar.“

„Þvílíkur talent þessi strákur og ástríðan drýpur af honum. Hann er það besta sem hefur gerst fyrir rappið í síðari tíð og vonandi munum við sjá miklu meira af honum í náinni framtíð.“

Arnar Úlfur

„Hefur einstaklega gott vald á tungumálinu og er frábær textasmiður, það er alveg feitt kjöt á textabeinunum hans. Draumurinn minn er að hann nái að kveikja áhuga yngri kynslóðarinnar á þessu fallega tungumáli sem við eigum. Hann með áhugaverðan stíl, skemmtilegt flæði og bara yfirhöfuð mjög nettur og töff.“

„Alveg frá því hann kom fram á sjónarsviðið með Helga í hljómsveitinni Bróðri Svartúlfs þá fann maður að þessi drengur hafði eitthvað að segja. Hann hefur haldið þeim hreina tóni á sama tíma og færni hans í flæði og rythma hefur farið með himinskautunum.“

Þessi voru líka nefnd:

Móri – „Móri heitir rappari sem skaust upp á stjörnuhimininn á þessu blómaskeiði íslenska rappæðisins. Textar hans eru mjög sterkir og áhrifamiklir. Flæði hans var rennandi mjúkt – þó innihald textanna væri yfirleitt frekar dökkt og hrjúft.“

Sesar A – „Sesar A er kallaður guðfaðir íslensks rapps. Hann á það hjartanlega skilið, því hann reið á vaðið með rapp á íslensku. Skammlaust má segja að þeir bræður Eyjólfur og Erpur hafi lagt línurnar og grunninn að íslensku rappi. Með framlagi sínu veittu þeir rappinu mikla innspýtingu og jafnvel vel því æði af stað sem einkenndi árin uppúr aldamótunum 2000. Textar Sesars A eru innihaldsríkir, tilfinningamiklir og vel ígrundaðir.“

Countess Mailaise – „Dýrfinna er næsta stjarna Íslands eins og ég hef svo oft sagt. Hún fer sínar eigin leiðir og er með sitt eigið flow og sinn eigin stíl. Það er mjög frískandi að hlusta á íslenskan rappara sem er ekki að stæra sig af peningum heldur talar um alvöru vandamál og tilfinningar eins og að alast upp í fátækt og kynþáttafordóma.“

Lefty Hooks – „Anthony kemur frá Brooklyn, New York og hefur því þennan einstaka old school New York stíl. Hann er með mjög músíkalskt flæði og hefur á síðustu árum fært sig meira yfir í reggae. Anthony datt út úr íslensku hip hop senunni þegar m.a. senan á Íslandi hætti að rappa á ensku. Hann hefur þó aldrei hætt að gera tónlist en býr enn þá á Íslandi og gengur nú undir artista nafninu Lefty Hooks.“

Reykjavíkurdætur – „Þó svo að verkefnið hafi verið að minnast á þrjá rappara…þá er eiginlega ekki hægt að slíta þær í sundur, það er svo mikill kraftur í þeim saman. Að einhverju leiti virka Reykjavíkurdætur á mig eins og gjörningalist, svona samsuða ólíkra listgreina, enda bakgrunnur þeirra og styrkur jafn ólíkur og þær eru margar. Þetta finnst mér mjög áhugavert og einkennandi fyrir þær. Þær hrista upp í staðalímyndum feðraveldisins, eiginlega bara með því að vera, taka sér pláss, burt séð frá því um hvað þær rappa. Það finnst mér líka mjög áhugavert.“

Króli – „Öðruvísi rappari með sérstakan söngstíl.“

Hössi í Quarashi – „Var alveg með´etta í Quarashi, flottur rappari og og einn af frumkvöðlunum.“

Salka Valsdóttir – „Salka semur frábæra texta, svalt, pólitískt og beitt yrkisefni, hún er með kröftugt flæði en engan hávaða, hvíslar hálfpartinn á köflum sem gerir hana dularfulla. Hún er klár í bragfræðinni, rímið og stuðlasetningin og svo framvegis. Salka er líka einstaklega fær pródúsent sem undirstrikar hæfileika og velgengni hennar og Reykja­víkur­dætra sem hafa unnið al­þjóð­leg verð­laun sem besta upp­rennandi hip-hop hljóm­sveit Evrópu.“

Alvia Islandia – „Alvia er ein af þeim sem hefur nýtt rappformið til að skapa og sprengja upp alla mælikvarða um hvað sé gott, vont og viðeigandi. Rappar, talar, muldrar og hvæsir og hendir inn hreinni sýru þegar henni sýnist. Til mikillar fyrirmyndar og hún ruddi ýmsar brautir þegar hún var að byrja: Bara kýláetta og þessir strákar sem þykjast allt vita geta bara hoppað upp í rassgatið á sér!“

Haukur H – „Virkilega efnilegur gaur sem semur átakanlega texta – gott stöff sem á bara eftir að verða betra.“

Egill Tiny – „Ein skærasta stjarna sem kom upp í rappsenunni um aldamótin. Leiðinlegt að sjá ekki meira af honum.“

Ragga Hólm – „Algjör fokking nagli.“

Álitsgjafar:

Þórdís Claessen, grafískur hönnuður og trommari, Kjartan Atli Kjartansson, rappfræðingur og sjónvarpsstjarna, Þórdís Nadia Semichat, handritshöfundur, uppistandarari, danskennari og verkefnastjóri Kramhússins, Anna Rakel Róbertsdóttir Glad, plötusnúður, dagskrárgerðarkona og grafískur hönnuður, Freyr Bjarnason, tónlistarspekúlant og blaðamaður, Kjartan Guðmundsson, poppfræðingur, Lovísa Rut Kristjánsdóttir, dagskrárgerðarkona og tónlistarfræðingur, Ólafur Páll Gunnarsson, dagskrárgerðarmaður og tónlistarfræðingur, Arnar Eggert Thoroddsen, poppfræðingur og tónlistargagnrýnandi, Rebekka M, fjöllistakona, Einar Logi Guðmundsson, listamaður, GRE, stjörnuvefari, Jónas Sigurðsson, tónlistarmaður.