Margir ástardagar nálgast. Bóndadagurinn er 22. janúar næstkomandi, Valentínusardagurinn þann 14. febrúar og loks Konudagurinn þann 21. febrúar. Það má því búast við að einhverjir elskhugar haldi upp á þessa daga með blómum, en þá er mikilvægt að vita hvaða merkingu blómin hafa.

Rósir

Rauðar rósir eru náttúrulega fyrstar á lista en þær eru oft kallaðar rósir elskhuganna. Það sakar hins vegar ekki að tjá ást sína með rósum í öðrum litum. Hvítar rósir tákna auðmýkt, gular tákna vinskap og gleði og bleikar rósir eru merki um þakklæti og aðdáun. Þá er tilvalið að gefa þeim sem þú féllst strax fyrir fjólubláar rósir.

Túlípanar

Túlípanar almennt tákna reisn og glæsileika en rauðir túlípanar tákna sanna ást. Þá er einnig hægt að velja bleika túlípana sem tákna umhyggju og hamingju eða gula túlípana sem eiga að færa viðtakanda gleðilegar hugsanir. Ef þú vilt biðjast afsökunar á einhverju þá eru hvítir túlípanar málið.

Nellikkur

Rauðar nellikkur eru merki um aðdáun, djúpa ást og umhyggju. Hvítar nellikkur passa einnig vel í rómantíska blómvendi þar sem þær tákna hreina ást og heppni. Alls ekki gefa elskhuganum gular nellikkur þar sem þær tákna höfnun.

Sólblóm

Það kemur líklegast ekki á óvart að tignarlegu sólblómin tákna hlýju, hamingju, aðdáun og langlífi. Best er að leyfa sólblómum að standa án annarra blóma þar sem þau skyggja á allt í kringum sig með fegurð sinni.

Krýsi (Tryggðarblóm)

Krýsi almennt táknar bjartsýni og gleði. Hvít blóm tákna trygga ást og rauð blóm tákn einfaldlega ást. Ekki velja gulan krýsa þar sem þau blóm tákna að ástin sé farin að fölna.

Orkídea

Orkídeur eru undurfögur blóm sem tákna ást, lúxus, fegurð og styrk. Bleikar orkídeur sérstaklega eru merki um sanna umhyggju.

Liljur

Bleikar liljur tákna ást, aðdáun, samkennd og kvenleika. Hvítar tákna hreinleika og hógværð og gular tákna hamingju og gleði. Appelsínugular liljur táknar orku, hlýju, sjálfstraust og virðingu og fjólubláu blómin tákna stolt, velgengni, virðuleika og aðdáun.