Sergio Humberto Padilla Hernandez vann sem hjúkrunarfræðingur á Angeles Cuauhtémoc sjúkrahúsinu í Mexíkó. Hann lést þann 6. nóvember, aðeins 28 ára að aldri. Hann skilur eftir sig eiginkonuna Denise Hernandez og soninn Sergio Hernandez III, fimm ára.

Nokkrum klukkustundum áður en hann lést var hann settur í öndunarvél vegna alvarlegra einkenna COVID-19. Síðasta verk hans á þessari jörðu var að taka upp kveðjuskilaboð til fjölskyldu sinnar. Hann hafði misst systur sína, Dolores, úr COVID-19 í ágúst og óttaðist að hann færi sömu leið. Því miður hafði hann á réttu að standa.

„Sama hvað gerist þá munuð þið ávallt hafa hagsmuni mína að leiðarljósi. Ávallt. Ég elska ykkur og geymi ykkur í hjarta mínu,“ segir Hernandez í myndbandinu átakanlega, sem sjá má hér fyrir neðan.

Búið er að setja af stað hópfjármögnun á GoFundMe til að styðja fjárhagslega við bak fjölskyldu Hernandez. Á síðunni er farið fögrum orðum um hjúkrunarfræðinginn.

„Sergio var fyrst og fremst ástúðlegur faðir sonar síns, Sergio III, og ástúðlegur eiginmaður. Sergio lifði lífinu lifandi. Hann var heittrúaður kaþólikki og elskaði að hjálpa öðrum.“

Feðgar á góðri stundu.

Í viðtali við CNN segir fjölskylda Hernandez að hann hafi tekið sé frí frá störfum á sjúkrahúsinu í júlí til að hugsa um móður sína og tvíburasystur sem báðar fengu COVID-19. Hann hóf aftur störf sem hjúkrunarfræðingur í september, rétt eftir að systir hans lést. Hernandez starfaði í framlínunni í baráttunni við COVID-19 en greindist sjálfur með sjúkdóminn þann 22. október síðastliðinn.

Frændi hans, Adalberto Hernandez, segir í samtali við CNN að engum hefði grunað að sjúkdómurinn myndi draga hann til dauða.

„Það sorglega er að læknarnir voru fullir bjartsýni því hann var ekki með undirliggjandi sjúkdóma. Hann var ungur, heilbrigður,“ segir hann.

„Nú er hann farinn, systir hans er farin. Það er einni manneskju færra til að hjálpa fólki í neyð.“