Stórlekarinn Tom Cruise missti stjórn á skapi sínu á tökustað myndarinnar Mission: Impossible 7 eftir að starfsmaður á setti braut sóttvarnarreglur.

Cruise hellti sér yfir allt tökuliðið eins og heyra má á upptöku sem breska blaðið The Sun hefur undir höndum. Svo virðist sem starfsmenn á setti hafi ekki virt nauðsynleg fjarlægðarmörk vegna heimsfaraldurs COVID-19.

Í upptökunni má heyra Cruise fara yfir mikilvægi þess að Mission: Impossible 7 sé tekin upp og framleidd. Margt sé í húfi í kvikmyndaiðnaði sem hefur koðnað niður í skugga kórónaveirunnar.

„Það er verið að gera myndir í Hollywood akkúrat núna út af okkur! Því þau trúa á það sem við erum að gera!“ öskrar Cruise meðal annars. „Ég er í símanum á hverju fjárans kvöldi við tryggingafélög, framleiðendur og þau horfa til okkar og nota okkur til að búa til kvikmyndir. Við erum að búa til þúsundir starfa drulluhalarnir ykkar!“

Cruise heyrist einnig hóta því að þeir sem brjóti sóttvarnarreglur á tökustað verði reknir á staðnum.

„Engar afsakanir. Geymið þær fyrir fólkið sem eru að missa fjandans húsin sín því iðnaðurinn okkar hrundi. Það færir þeim ekki mat á borðið eða borgar fyrir háskólamenntun,“ segir hann og heldur áfram.

„Ég er búin að segja ykkur til og núna vil ég að þið hlýðið. Ef þið gerið það ekki megið þið hypja ykkur. Við hættum ekki tökum á þessari mynd! Er það skilið?“

Tökur á Mission: Impossible 7 áttu að hefjast á Ítalíu í febrúar á þessu ári en var frestað þar til í september vegna heimsfaraldursins. Í október greindust tólf starfsmenn í framleiðsluteyminu með COVID-19 á meðan á tökum stóð í Ítalíu. Nú fara tökur fram í Englandi og greiddi Cruise sjálfur tæpar níutíu milljónir fyrir skemmtiferðaskip svo tökulið og leikarar gætu einangrað sig frá umheiminum á meðan á tökum stendur.