Ég elska túnfiskssalat og gæti borðað samlokur með slíku salati í flest mál. Þessi samlokuuppskrift, sem ég fann á Delish, er hins vegar mörgum númerum of góð. Gjörsamlega tryllt. Trylltari en allar aðrar samlokur með túnfiskssalati.

Besta túnfiskssamlokan

Hráefni:

1/3 bolli mæjónes
safi úr ½ sítrónu
½ tsk. chili flögur (má sleppa)
2 dósir túnfiskur í vatni
2 sellerístilkar, smátt saxaðir
2 súrar gúrkur, smátt saxaðar
¼ rauðlaukur, smátt saxaður
2 msk. fersk steinselja, söxuð
salt og pipar
8 brauðsneiðar, til dæmis súrdeigs
2 msk. smjör
1 tómatur, skorinn í sneiðar
8 sneiðar cheddar ostur

Aðferð:

Hitið ofninn í 200°C. Blandið mæjónes, sítrónusafa og chili flögum saman í skál. Takið vatnið af túnfiskinum og bætið saman við mæjónesblönduna. Blandið síðan sellerí, súrum gúrkum, rauðlauk og steinselju vel saman við. Saltið og piprið. Smyrjið eina hlið af hverri brauðsneið með smjöri. Setjið um það bil hálfan bolla af túnfisksblöndunni á 4 brauðsneiðar, samt ekki smurðu hliðina. Setjið síðan tómat og ost ofan á. Lokið með hinum 4 brauðsneiðunum, með smjörhliðina upp. Raðið samlokunum á smjörpappírsklædda ofnplötu og bakið þar til osturinn bráðnar, eða í um 4 til 5 mínútur.