Hin tuttugu ára Bethany Nesbitt, nemi á þriðja ári í sálfræði við Grace College í Winona Lake í Indíana í Bandaríkjunum, fannst látin í herbergi sínu í skólanum síðastliðinn föstudag.

Dánarorsök Bethany er blóðsegarek til lungna að sögn réttarlæknisins Tony Ciriello, en COVID-19 hefur áhrif á lungnastarfsemi. Blóðsegarek einkennist af stíflu sem blóðtappi í lungnaslagæð veldur. COVID-19 getur valdið slíkum blóðtappa og segir Ciriello að sjúkdómurinn COVID-19 hafi átt þátt sinn í dauða Bethany, þó hún hafi ekki vitað hún væri með sjúkdóminn áður en hún lést.

Stephen Nesbitt, bróðir hinnar látnu, segir frá andlátinu á Twitter. Hann segir að systir sín hafi verið með astma og hafi fundið fyrir einkennum COVID-19 í kringum 20. október. Þann 22. október fór hún í COVID-19 skimun en fékk ekki niðurstöðurnar vegna mistaka. Þann 26. október fór Bethany Nesbitt á bráðamóttökuna vegna þess að súrefnismettun hennar hafði fallið. Læknar sögðu að hún væri líklega með COVID-19 en að ástandið væri ekki alvarlegt og að hún væri á batavegi.

Bethany sagði ættingjum sínum að hún hefði verið hitalaus í sólarhring þann 28. október og að súrefnismettun væri að ná jafnvægi. Bethany fór aftur í COVID-próf þann 29. október. Það kvöld horfði hún á Netflix og fór síðan að sofa. Hún vaknaði ekki aftur en eftir andlát hennar kom í ljós að hún hafði greinst með COVID-19 sjúkdóminn.

Fjölskylda hennar hefur hafið söfnun á hópfjármögnunarsíðunni GoFundMe þar sem hún safnar fyrir minningarsjóði henni til heiðurs. Fjölskylda hennar segir að Bethany hafi verið búin að vera í sóttkví í tíu daga í herbergi sínu á heimavistinni áður en hún lést. Bróðir hennar lýsir henni í fyrrnefndu tísti.

„Bethany var litla barnið í fjölskyldunni, yngsta barnið af níu. Hún elskaði Jesús. Hún elskaði jarm (e. meme). Og hún elskaði fjölskyldu sína og vini til dauðadags.“

Bethany var hvers manns hugljúfi.

Á GoFundMe er einnig farið fögrum orðum um Bethany.

„Hún var fórnfús og ástúðlegur vinur og hvatti alla í kringum sig,“ skrifar fjölskylda hennar.

„Hún hafði ástríðu fyrir að hjálpa öðrum, sérstaklega börnum, og leiftrandi skopskyn hennar og dásamlegur hlátur róaði fólkið í kringum hana.“

Fjölskyldan segir í fréttatilkynningu að hún vilji ekki „dreifa ótta heldur hvetja aðra til að vara sig á sama tíma og tilvikum COVID-19 fer fjölgandi.“ Þá segir fjölskyldan að enginn sé óhultur í heimsfaraldrinum.

„Ekki halda að vírusinn hafi ekki áhrif á ungt fólk,“ segir hún. „Bethany var varkár. Hún bar grímu. Hún virti fjarlægðarmörk. Við hvetjum ykkur til að fara eftir leiðbeiningum og varúðarráðstöfunum yfirvalda. Það er ekki þess virði að safnast saman í stórum hópum í ár. Það verður autt sæti við matarborðið næst þegar fjölskylda okkar kemur saman – og í hvert sinn eftir það. Þessi missir varir að eilífu.“

Rúmlega níu milljón COVID-tilvik hafa komið upp í Bandaríkjunum og rúmlega 230 þúsund hafa látist úr sjúkdómnum vestan hafs þegar að þetta er skrifað.