Leikkonan Conchata Ferrell, sem er hvað þekktust fyrir að leika húshjálpina Bertu í sjónvarpsþáttunum Two and a Half Men, lést mánudaginn 12. október, 77 ára að aldri.

Ferrell fór í hjartastopp á Sherman Oaks-sjúkrahúsinu í Kaliforníu og lést í kjölfarið. Fjölskylda hennar var með henni þegar hún lést samkvæmt frétt Deadline.

Ferrell var lögð inn á sjúkrahús í desember í fyrra vegna nýrnasýkingar. Eftir útskrift var hún rúmföst heima hjá sér og þurfti að gangast undir langa og stranga endurhæfingu. Í maí á þessu ári var hún aftur lögð inn á sjúkrahús og fór í hjartastopp nokkrum dögum síðar. Í kjölfarið var henni haldið á gjörgæsludeild í fjórar vikur.

Conchata Ferrell.

Ferrell lét fyrst ljós sitt skína í leiklistinni á áttunda áratug síðustu aldar í leikritinu The Hot I Baltimore. Hún fékk fyrstu Emmy-tilnefninguna árið 1992 fyrir hlutverk sitt í sjónvarpsþáttunum L.A. Law. Þar lék Ferrell lögfræðinginn Susan Bloom. Hún fékk aftur tilnefningar til Emmy-verðlaunana árið 2005 og 2007 fyrir hlutverk sitt í Two and a Half Men.

Ferrell skilur eftir sig eiginmann, eina dóttur og tvær stjúpdætur.

Meðleikarar Ferrell í Two and a Half Men hafa látið falleg orð falla um vinkonu sína á samfélagsmiðlum, eins og sést hér fyrir neðan:

Þá er Adam Sandler einnig meðal stjarna sem hafa minnst Ferrell: