Leikkonan Sharon Stone opnar sig upp á gátt í endurminningum sínum The Beauty of Living Twice. Í bókinni fer hún yfir ferilinn, en á honum hafa skipst á skin og skúrir.

Stone fer til að mynda vel yfir gerð myndarinnar Basic Instinct sem kom út árið 1992, en í þessum erótíska þriller leikur Stone glæpasagnahöfund sem tengist inn í morðrannsókn. Það má með sanni segja að goðsagnakenndasta atriðið í myndinni sé þegar að persóna Stone er yfirheyrð, færir leggina í sundur og þá blasir við áhorfendum að persónan er ekki í nærbuxum.

Í bókinni staðhæfir Stone að hún hafi verið plötuð í að fara úr nærbuxunum. Hún segir að búningahönnuður hafi beðið hana um að fara úr nærbuxunum svo þær sæjust ekki í gegnum kjólinn og var henni lofað að píka hennar myndi ekki sjást á hvíta tjaldinu. Stone var síðan kölluð inn til að sjá lokaútgáfu myndarinnar og horfði í herbergi sem var fullt af umboðsmönnum og lögfræðingum.

„Þannig sá ég píkuna mína á hvíta tjaldinu í fyrsta sinn, löngu eftir að mér var sagt: Við sjáum ekkert – þú þarft bara að fara úr nærbuxunum því hvíti klæðnaðurinn endurspeglast í ljósinu þannig að við sjáum þær,“ skrifar leikkonan í bókinni, í broti sem Vanity Fair birtir.

Eftir sýningu á myndinni segir Stone að hún hafi slegið leikstjórann, Paul Verhoeven, utan undir, farið út í bíl og hringt í lögfræðing sinn, Marty Singer. Í samtali sínu við hann komst hún að því að þetta athæfi væri ekki löglegt.

„Ég lét Paul vita af þeim valkostum sem Marty hafði kynnt mér. Hann þvertók auðvitað fyrir það að ég hefði eitthvað um málið að segja. Ég var bara leikkona, bara kona. Hvaða valkosti gæti ég haft?“ skrifar Stone og heldur áfram. „En ég hafði eitthvað um málið að segja. Þannig að ég hugsaði mikið og ákvað að leyfa atriðið í myndinni. Af hverju? Því þetta passar í myndinni og fyrir persónuna mína og vegna þess að ég gerði þetta, þegar að öllu var á botninn hvolft.“

Leikkonan segir enn fremur að hlutverkið í Basic Instinct hafi tekið á.

„Ég get sagt að hlutverkið reyndi hvað mest á dökku hliðina á sjálfri mér. Þetta var hrollvekjandi. Ég gekk í svefni þrisvar á meðan á framleiðslu myndarinnar stóð. Ég vaknaði tvisvar alklædd í bílnum mínum í bílskúrnum. Ég fékk hræðilegar martraðir.“