Frá því að elstu menn muna, eða svona hér um bil, hefur því verið haldið fram að eitt hundaár jafngildi sjö mannsárum. Því hafa hundaeigendur margfaldað aldur hunda með sjö og þannig komist að því hvað hundurinn væri gamall ef hann væri maður. Ný rannsókn afsannar þessa kenningu.

Rannsóknin var gerð við læknaháskólann í San Diego í Kaliforníu og birtist nýlega í læknaritinu Cell Systems. Niðurstöður rannsóknarinnar sýna að hundar og menn eldast mismunandi hratt og því sé ekki hægt að nota aðferðina að margfalda hundaár með sjö.

Vísindamennirnir á bak við rannsóknina hafa þróað nýja jöfnu sem getur reiknað út aldur hunda í mannsárum á áreiðanlegri hátt og gæti þessi jafna nýst til dæmis dýralæknum.

Í rannsókninni var stuðst við blósýni úr 105 Labrador Retriever-hundum í mismunandi aldurshópum. Vísindamennirnir bjuggu til graf byggt á þessum sýnum, sem sjá má hér fyrir neðan.

Ef litið er á grafið, sem er innblásið af leikaranum Tom Hanks, má sjá að eins árs gamall hundur er um þrítugur í mannsárum og fjögurra ára hundur um það bil 52ja ára í mannsárum, þar sem hundar þroskast hratt á unga aldri. Þegar að hundur nær sjö ára aldri byrjar að hægjast á öldrun og því væri hann þá búinn að ná um sextíu ára aldri.

Vísindamenn taka hins vegar fram að þessi formúla sé ekki fullkomin og ekki algild fyrir allar hundategundir. Þeir vona hins vegar að þessi nýja formúla geti verið fyrsta skrefið í átt að því að rannsaka aldur hunda í mannsárum.