Sumar myndir er hægt að horfa á aftur og aftur og aftur. Ég elska myndir sem snerta alla hjartastrengina og láta mig fara að skæla, sama hve oft ég sé þær. Hér eru tíu myndir sem láta mig ávallt öskurgráta, en ég ætla ekkert að dæma annars um gæði myndanna. Þetta er því eingöngu listi fyrir þá sem vilja grenja hressilega yfir bíómyndum.

The Notebook

Án efa ein af fallegustu ástarsögum allra tíma og ég byrja að grenja um leið og textinn rennur yfir skjáinn í byrjun, einfaldlega út af því að ég veit hvaða fallega saga mun blasa fyrir augum mínum næstu tvo tímana eða svo. Línan sem svo endanlega ýtir mér fram af tárvotri brúninni er: „I waited for you for seven years!“ Þá streyma tárin það sem eftir lifir mynd og ekkasogin vekja fólkið í næstu húsum.

My Sister’s Keeper

Önnur mynd sem virðist vera hönnuð til að láta mann emja af gráti, einmitt úr smiðju sama leikstjóra og The Notebook – Nick Cassavetes. Sá kann sitt tárafag! Mér hefði aldrei dottið í hug að Cameron Diaz gæti kitlað tárakirtlana mína, en þurfti svo sannarlega að játa mig sigraða yfir þessari mynd – aftur og aftur og aftur og aftur.

My Girl

Ég gleymi því aldrei þegar ég sá þessa mynd. Ég var að verða tíu ára gömul og uppgötva heiminn, byrjuð að verða hugsanlega kannski smá skotin í strákum í bekknum og allt sem því fylgir. My Girl hreyfði svo við mér að ég var marga daga á eftir að jafna mig. Þetta var í fyrsta sinn sem ég syrgði ímyndaða manneskju í bíómynd og tók ég dauðdaga litla Tómasar ó svo nærri mér. Svo nærri mér í raun að ég skrifaði ljóð um missi, líkt og hún Vada dúlla gerði í myndinni. Já, ég var nettur lúði sem barn.

A Dog’s Purpose

Hundur sem fæðist aftur og aftur með þann eina tilgang að passa upp á eiganda sinn og alla sem hann elskar. Hljómar eins og alveg hreint ömurleg mynd, enda horfði ég á þessa alveg óvart. Og GUÐ. MINN. GÓÐUR! Sem hundaeigandi nánast alla ævina brotnaði ég nokkrum sinnum niður yfir þessar dásamlegu mynd og tárin streymdu eins og enginn væri morgundagurinn. Ég mæli alveg líka með framhaldinu, A Dog’s Journey, þó hún sé ekki nærri því jafnmikil grátveisla.

Sex and the City

Hér þarf að vera ákveðin viðvörun því ég held að þeir sem hafi ekki horft á þættina um Beðmál í borginni hafi ekkert gaman að þessari mynd. Ég hafði engar væntingar, enda oft frekar skrýtið þegar að þættir eru gerðir að bíómynd, en þessi mynd olli engum vonbrigðum. Hún er dásamlegt framhald af þáttunum og ég verð svo endalaust reið þegar að Mr. Big dirfist að haga sér eins og flón á brúðkaupsdaginn. Guð, hvað ég get grátið með Carrie þegar hún lemur hann með brúðarvendinum!

Legends of the Fall

Það er fátt fallegra og grátlegra en þegar að ungur Brad Pitt syrgir konuna sem hann elskar. Tárin hans eru svo einlæg að maður getur ekki annað en að hrífast með. Tímamótaverk fyrir þá sem vilja gráta yfir öllu og engu.

Me Before You

Ofboðslega fyrirsjáanlegur söguþráður. Hin unga og hressa Louisa ræður sig í umönnunarstarf sem felst í því að hugsa um hinn geðvonda og lamaða Will, sem einnig er moldríkur. Þau fella hugi saman og ást þeirra er svo hrein og tær. Þá fær fyrirsjáanleikinn að víkja fyrir ömurlegum raunveruleika og kjökrið breytist í öskurgrátur.

Les Misérables (2012)

Athugið – ef þið fílið ekki söngleiki þá er þetta ekki myndin fyrir ykkur. Eingöngu söngur, sjáiði til. Minn uppáhaldssöngleikur meira að segja. Því var ég efins þegar ég frétti að erkióvinkona mín, Anne Hathaway, myndi fara með hlutverk Fantine og syngja eitt dramatískasta og fallegasta lag söngleikjarins, I Dreamed a Dream. En viti menn! Anne gjörsamlega neglir þetta og flutningurinn er yfirþyrmandi. Ég reyndi að gráta í laumi í bíóinu en gat ekki haldið í mér! „I had a dream my life would be. So different from this hell I’m living!“ Reynið að gráta ekki yfir þessu lagi!

Så Som i Himmelen

Sænsk mynd sem kom út árið 2001 og fjallar um Daniel Daréus, frægan tónlistarstjóra sem snýr aftur í heimabæ vegna veikinda. Þar ætlar hann að slappa af en endar á því að stjórna bæjarkórnum. Myndin er róleg en yfir henni hvílir einhver dularfullur og fallegur blær sem lætur mig grenja frá upphafsstundinni. Svo þegar að kórinn tekur Gabriellas Sång þá er mér allri lokið! Bæ, bæ maskari!

Dirty Dancing

Eitt skylduáhorf í blálokin. Ef að þið tárist ekki allavega smá þegar að Patrick Swayze hreytir út úr sér „Nobody puts baby in the corner“ þá er eitthvað að!