Við lifum á fordæmalausum tímum eins og svo oft hefur verið sagt síðustu vikur. Kórónaveiran hefur raskað lífi okkar og það reynist mörgum erfitt að halda rútínu. Óreglan bitnar á svefninum, en það er fátt mikilvægara í þessu lífi en góður nætursvefn.

Á vefmiðlinum Healthline má finna sex góð ráð til að ná góðum nætursvefni, ráð sem allir ættu að geta tileinkað sér.

1. Rútína, rútína, rútína

Atvinnuleysi er mikið, margir vinna heima og börnin þurfa meiri athygli en vanalega. Þá vill það verða svo að svefnrútínan fer í rugl. Hins vegar í mjög mikilvægt að halda fastri rútínu þegar að kemur að háttatíma; vakna og sofna á svipuðum tíma á degi hverjum.

Dr. Navya Singh mælir með því að beita sig miklum aga þegar kemur að svefnrútínu.

„Vaknaðu á sama tíma á hverjum morgni ef þú vinnur heima og klæddu þig. Þú ferð kannski bara í næsta herbergi eða vinnur í svefnherberginu en það er bara svo gott að finna fyrir rútínu og að allt sé eðlilegt,“ segir hún.

2. Bless, blundur

Það er vanalegt að þeir sem eru í sóttkví eða einangrun þreytist meira en áður, því það er mjög þreytandi að vera fastur á sama stað um langa hríð. Það er hins vegar gríðarlega mikilvægt að spara lúra yfir daginn. Ef maður leggur sig yfir daginn getur maður orðið meira syfjaður þegar maður vaknar og átt erfiðara með að festa blund á kvöldin. Þá vakna maður pirraður og þreyttur og lendir í vítahring.

Best er að sleppa því alfarið að blunda og hafa frekar eitthvað fyrir stafni.

3. Hreyfðu þig

Líkamsræktarstöðvar og sundlaugar eru lokaðar en opna fljótt. Það er hins vegar hægt að hreyfa sig vel úti í guðs grænni náttúrunni. Það skiptir svo sem ekki máli hver hreyfingin er en hún er mikilvæg fyrir nætursvefninn, svo lengi sem hún er ekki stunduð nokkrum klukkutímum fyrir háttatíma. Þá getur verið erfitt að sofna.

4. Spara fréttirnar

Það er lítið annað í fréttum en hörmungarnar sem fylgja COVID-19. Það væri hægt að lesa fréttir um faraldurinn allan sólarhringinn ef maður vildi. Sérfræðingar mæla hins vegar með að takmarka lestur á fréttum yfir daginn og skammta sér tíma í það jafnt yfir daginn. Þessar fréttir geta nefnilega aukið streitu og kvíða. Einnig er best að sleppa því að lesa fréttir stuttu fyrir svefn.

5. Snjalltæki niður

Mælt er með því að slökkva á öllum snjalltækjum klukkutíma áður en gengið er til rekkju. Betra er að lesa bók eða hlusta á tónlist til að gefa heilanum kærkomna hvíld.

6. Burt með bokkuna

Manni finnst eins og maður sofi betur eftir nokkra drykki, en það er ekki rétt. Maður sefur verr með áfengi í blóðinu og alkóhólið hefur einnig mjög slæm áhrif á ónæmiskerfið á meðan maður sefur.