Kvikmyndagerðarkonan Marzibil Sæmundardóttir útskrifaðist sem handritshöfundur og leikstjóri frá Kvikmyndaskóla Íslands árið 2013. Hún stjórnar kvikmyndahátíðinni Stockfish, kennir í Kvikmyndaskóla Íslands og hefur frá útskrift framleitt sínar eigin stuttmyndir; Freyju, Jón Jónsson og The Unicorn. Einnig hefur hún framleitt stuttmyndir fyrir aðra. Nú safnar hún fyrir eftirvinnslu og dreifingu á stuttmyndinni Drink My Life á Karolina Fund. Það má því með sanni segja að lífið hennar snúist um kvikmyndir, en hún segir hægara sagt en gert að draga fram lífið í þeim bransa.

„Ferillinn hefur pínu bara farið í að reyna að lifa af á kvikmyndatengdum verkefnum, það er oft meira en að segja það. Ég elska allt kvikmyndatengt og tel mig heppna að hafa þessi verkefni. Ég held að kvikmyndagerðarfólk sé jafnvel ein af verst launuðu starfsstéttum landsins, sérstaklega þegar er tekið tillit til vinnuumhverfis og -öryggis. Þetta hefur því gengið hægt enda frekar erfitt að vera ein í þessu sem ég var framan af. Það er vissulega komið meira skrið á þetta síðan að maðurinn minn kom inn í þetta með mér. Drink My Life er til dæmis fyrsta myndin eftir mig sem ég geri með einhverju fjárframlagi. Tók ágætis tíma,“ segir Marzibil en hún á og rekur framleiðslufyrirtækið arCus Films ásamt eiginmanni sínum, leikaranum og framleiðandanum Ársæli Sigurlaugar Níelssyni.

Marzibil elskar kvikmyndir og allt sem þeim tengist.

Hugmyndin fæddist á Kaffibarnum

Drink My Life er svört dramakómedía um óvirka alkóhólistann Steina, en það er eiginmaður Marzibilar sem túlkar hann.

„Hann er að standa sig gagnvart öllum skyldum en á sama tíma vanrækir hann sjálfan sig, til­finn­inga­lega og and­lega. Í myndinni koma afleiðingar þess í bakið á honum og þá hefst þá ferðalag sem við förum í með honum. Þetta er hálfgerð rússibanareið þar sem hvorki Steini né við vitum hvað gerist næst. Það er einhver annar en Steini við stjórnvölin,“ segir Marzibil, en það er vægt til orða tekið að segja að hún hafi gengið lengi með handritið í maganum. Skrifin hófust nefnilega fyrir níu árum síðan.

„Hugmyndin kom til þegar ég var að spjalla við vin minn á Kaffi­barnum um hug­mynd að hand­riti fyrir skóla­mynd. Þessi vinur minn benti þá á vin sinn sem stóð álengd­ar, súper­hress og hrókur alls fagn­aðar með hell­ing af gaurum í kringum sig og sagði: „Mér finnst að þú ættir að skrifa handrit um hann!“  Þá var ekki aftur snú­ið, það þarf oft ekki meira en eitt svona augnablik til að sköpunin fari á sjálfstætt flug í hausnum á manni. Myndin er að sjálfsögðu ekki um hann svo það sé skýrt,“ segir Marzibil og brosir.

„Ég gerði þessa mynd ekki þá, þar sem þetta var bara of stór framleiðsla fyrir skólamynd. Handritið tók ég samt upp reglulega og kláraði í rauninni ekki fyrr en árið 2018. Þá ákvað ég að senda umsókn um framleiðslustyrk til Kvikmyndamiðstöðvar Íslands. Reyndar frekar magnað að þessi saga hafi ekki viljað sleppa fyrr en hún fengi að útskrif­ast úr skólanum, ef svo má að orði komast.“

Hér sést Ársæll í hlutverki Steina í Drink My Life.

Landlægur vandi íslenskra karla

Því hefur oft verið fleygt fram sem ráðleggingar til þeirra sem vilja skrifa skáldskap að þeir ættu að skrifa um það sem þeir þekki. Marzibil segir að handritið sé vissulega að einhverju leyti innblásið af hennar eigin lífi og upplifunum.

„Ég þekki vel slæmar afleiðingar þess hjá mér og öðrum nánum mér að tjá sig ekki um líðan sína. Það boðar aldrei gott. Við þurfum að tjá okkur til að vinna úr og losa um tilfinningar eins og vanmáttarkennd, sorg, vonbrigði, kvíða og áfram mætti lengi telja. Annars safnast þetta bara saman innra með okkur í einhvern sársaukahnút sem á sér engin sérkenni heldur verður bara partur af okkur þar til við köfnum á honum, beint eða óbeint. Þetta er eitt af því sem myndin fjallar um,“ segir Marzibil.

En á sagan erindi við Íslendinga?

„Já, mér finnst pínu landlægt hjá íslenskum karlmönnum að þurfa að vera sterka, þögla týpan og viðurkenna aldrei vanmátt sinn eða tjá sig um eigin líðan, hvað þá gráta. Það má helst ekki, nema í einrúmi kannski. Það eru til margar rannsóknir sem sýna fram á þetta og því sem fylgir, eins og til dæmis að einmanaleiki er mjög algengur hjá íslenskum karlmönnum og margir eiga til dæmis ekki náinn vin. Ofan á það segja þeir svo auðvitað engum frá einmanaleikanum og bera bara harm sinn í hljóði. Mér finnst þetta bara virkilega sorglegt. Elsku Steini minn, aðalpersóna myndarinnar, er þessi karlmaður,“ segir Marzibil og heldur áfram.

„Ég þurfti að vinna lengi og vel í mér til að læra að tjá mig um mína líðan og treysta fólki líka fyrir erfiðleikum mínum eða vanlíðan, ekki bara gleðinni.“

Húmor og samskipti

Eins og áður segir fer eiginmaður Marzibilar, Ársæll, með aðalhlutverk myndarinnar. Marzibil segir að vinnan og einkalíf hjónanna sé lítið aðskilin þar sem þau geri flest í lífinu saman. Þau vinni vel saman – sterk heild.

„Vissulega er það þannig að þegar það koma upp erfiðleikar í einkalífinu eða vinnunni þá hefur það áhrif á hitt. Við vinnum vel saman, erum bara frekar góð þar eins og í einkalífinu. Aðalatriðið er alltaf bara að tala saman, sýna brestum hvors annars skilning og svo er hvatningin ómetanleg. Það má heldur ekki vera leiðinlegt, húmorinn gerir lífið betra á öllum sviðum,“ segir Marzibil og hlær.

Erfitt fyrir einstæða móður

Ársæll og Marzibil á góðri stundu.

Marzibil stefnir á að safna fjögur þúsund Evrum á Karolina Fund til að klára Drink My Life, eða tæplega 650 þúsund krónum. Ef allt gengur að óskum mun hún í framhaldinu reyna að koma myndinni inn á kvikmyndahátíðir, í bíósýningar og þaðan í sjónvarp eða í dreifingu á efnisveitur. Marzibil slær samt ekki slöku við og er með mörg önnur járn í eldinum.

„Ég er með þrjú handrit í fullri lengd í vinnslu sem eru öll orðin langhlaup nú þegar, heimildarmyndaþáttaseríu á teikniborðinu og heimildarmynd og mannlífsþætti sem er búið að taka upp og geta vonandi bráðum farið í eftirvinnslu. Það stendur bara á fjármögnun. Mér finnst nánast allt skemmtilegt við kvikmyndagerð og langar að gera margbreytileg verkefni en draumurinn er auðvitað mynd í fullri lengd og að geta lifað við fjárhagslegt öryggi sem kvikmyndagerðarkona,“ segir hún. En hvernig er að vera kona í heimi kvikmyndanna?

„Ég þekki svo sem ekki annað en að vera kona í þessum heimi. Það var mjög erfitt þegar ég var einstæð móðir og ég var til dæmis ekki að fara að vinna í stóru verkefnunum í margar vikur eða mánuði. Þetta myndi að sama skapi eiga við einstæða feður. Ég hef því farið þessa einstæðingsleið sem hefur verið ansi mikil hægferð en sem betur fer alltaf upp á við. Þetta er bara svo ótrúlega gefandi að þetta er allt þess virði,“ segir hún og heldur áfram.

„Mér finnst líka konur í kvikmyndagerð duglegar að styðja við hvor aðra. Í dag á það held ég reyndar við um flesta karlmennina í þessum bransa líka. Almennt held ég að þetta sé að færast í rétta átt þó við eigum ennþá langt í land með ýmislegt. WIFT, Samtök kvenna í sjónvarpi og kvikmyndum, hefur til að mynda unnið ötullega að því reyna að jafna kynjahlutföllin í þessum bransa og margt hefur áunnist undanfarin tíu ár.“

Hægt er að styrkja myndina Drink My Life á Karolina Fund með því að smella hér.